GALLVASKUR FORMAÐUR
Molalesandi benti á eftirfarandi frétt á dv.is (22.05.2016) https://www.dv.is/frettir/2016/5/22/sigmundur-er-alls-ekki-haettur-stefnir-aftur-forsaetisraduneytid/
Hann skrifar:,,Í fréttapistli á DV.is í dag er haft eftir Sigmundi Davíð, að Framsóknarflokkurinn „fari gallvaskur í næstu kosningar“. Akkúrat það. Er verið að tala um gall- svona eins og gall-súran – eða gall-aðan.
Væntanlega er ekki verið að ræða um galvaskan flokk heldur annað hvort gall-aðan eða gall-súran. Nema fréttaskrifari hafi þarna rangt eftir Framsóknarformanninum. Feili á réttrituninni. Sé eins og þú segir „blessað fréttabarn“.
Hvernig er þetta? Eru engir prófarkalesarar lengur starfandi á fréttamiðlum? Hver uppfræðir þá fréttabörn, sem bila á íslenskunni? Eru þeir bara látnir vera „bilaðir“ áfram?” Þakka bréfið. Galvaskur átti þetta auðvitað að vera. Prófarkalesarar eru horfin stétt. Enginn les yfir áður en birt er. Gleymd er gamla reglan: Beur sjá augu en auga.
AÐ VERSLA VEITINGAR
Á fréttavef Ríkisútvarpsins (23.05.2016) var frétt um salernisaðstöðu í Dimmuborgum. Þar segir:,, Rekstur aðstöðunnar er í hö(n)dum Kaffi Borga, en í staðinn fá viðskiptavinir þess aðgang að klósettinu þegar þeir versla veitingar.” Rögnvaldur Már Helgason, skrifaði fréttina. Honum, eins og of mörgum öðrum fréttaskrifurum, er ekki ljós munurinn á notkun og merkingu sagnanna að kaupa og að versla. Halda að þær hafi nákvæmlega sömu merkingu. Svo er þó ekki.
Oftsinnis hefur verið vikið að þessu Molum.
EIGENDASKIPTI AÐ EÐA Á
Glöggur maður benti Molaskrifara nýlega á eyðublað frá Samgöngustofu þar sem þrívegis er talað um eigendaskipti að ökutæki. Okkur kom saman um að þarna ætti sennilega frekar að tala um eigendaskipti á ökutæki. Ekki er til dæmis talað um eigendaskipti aðhestum, heldur eigendaskipti á hestum. Þetta snýst þó ef til vill fyrst og fremst um málsmekk eða málkennd.
En það er alls ekki nýtt í málinu að tala um eigendaskipti að e-u. Eigendaskipti urðu að Þjóðólfi, Ísafold 1888. Eigendaskipti verða að skipi eða skipshluta , Ægir 1930.
Í Ísafold 1895 er talað um eigendaskipti áfénaði og í Kirkjubl. 1894 eigendaskipti ákirkjustöðum. Í Ægi 1930 er talað um hin tíðu eigendaskipti á skipunum. Algengast virðist fram til 1990 að tala um eigendaskipti á e-u en eftir 200 verður algengara að tala um eigendaskipti að e-u. Svona breytist málið.
Samgöngustofa gæti líka kallað þetta eyðublað tilkynningu um eigendaskipti ökutækis, eða tilkynningu um breytt eignarhald á ökutæki. Þakka góða ábendingu og fróðlegar upplýsingar
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar