«

»

Molar um málfar og miðla 1962

,,NIÐUR LÆKJARGÖTU”

Molavin skrifaði (15.06.2016): ,, Af fréttavef ruv.is (15.06.20169: „hófst eftirförin við Lækjartorg við Austurstræti. Ökumaður bifreiðarinnar ók á ofsahraða niður Lækjargötu í átt að Reykjavíkurtjörn.“ Nú hef ég aldrei heyrt talað um að Lækjargata liggi upp eða niður, líkt og t.d. Bankastræti, en þar sem hún er nokkurn veginn lárétt mætti ætla að rökréttara væri þá að tala um áttina „niður“ til sjávar? Eðlilegast hefði þó verið að segja „suður“ Lækjargötu.”.

Kærar þakkir Molavin. Kannski hefur sá sem skrifaði ekki komið í miðborg Reykjavíkur.

 

AUKASETNINGAFÁR

Sigurður Sigðurðarson skrifaði (10.06.2016):

,Dagarnir, þegar Roy Hodgson stillti liði sínu upp í formfast 4-4-2 leikkerfi með svo litlu flæði að Gary Lineker spurði hvort England væri að spila fótbolta ,,frá miðöldum,«, heyra fortíðinni til.”

 

Svona byrjar grein í EM-blaði Morgunblaðsins og er frekar hallærisleg málsgrein. Orðaröðin er flækja. Byrjað er á einu orði, svo skotið inn aukasetningum og síðast kemur aðalatriðið eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Lesa þarf málsgreinina aftur og aftur til að skilja.

 

Ég veðja á að þetta sé þýðing úr ensku, unnin í Google-Translate. Ekki nokkur maður kemur nærri. Allt vélrænt. Að öðru kosti hefði þýðingin verið eitthvað á þessa leið: Þeir dagar eru liðnir er Roy Hodgson stillti liði sínu upp í formfast 4-4-2 leikkerfið með afar litlu flæði. Gary Lineker spurði/velti fyrir sér hvort England væri að leika fótbolta „frá miðöldum“.

 

Í góðu íslensku ritmáli skiptir stundum miklu að setja punkt sem oftast, ekki rugla með margar aukasetningar. Þetta ráðleggur til dæmis Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri, í afburðagóðum vef sínum.

 

Íþróttafréttamenn eru oftar en ekki valdir til starfa á fjölmiðlum vegna sérþekkingar sinnar. Þeir eru því miður ekki allir góðir pennar, ekki frekar en fjölmargir blaðamenn. Raunar er það svo að allir sem stunda skrif af einhverju tagi ættu að geta lært eitthvað af Jónasi. Oft má styðjast við Google-Translate en þýðingar úr því apparati verður að taka með fyrirvara og lagfæra – oftast mikið.” – Kærar þakkir, Sigurður. Satt og rétt.

 

FALDI SIG Í RJÓÐRI!

Sigurður sendi Molum annað bréf á fimmtudag (16.06.2016). Þar segir:

,,Birgir Olgeirsson, blaðamaður á visir.is segir í fyrirsögn og frétt:

Faldi sig fyrir lögreglumönnum í rjóðri eftir að hafa tekið u-beygju á Lækjargötu.

Hvað skyldi rjóður vera. Jú, samkvæmt minni máltilfinningu er það staður í skógi þar sem engin tré vaxa. Víða á Goðalandi eru rjóður og þar er oft tjaldað. Varla hefur flóttamaðurinn falið sig í rjóðri. Hafi hann gert það er ekki furða þótt hann fyndist. Líklegra er að hann hann hafi falið sig í kjarri, enginn skógur á þessu svæði. Fortek þó ekki fyrir það að maðurinn hafi staðið í rjóðrinu, lokað augunum og talið sig vel falinn.” Takk, Sigurður. Auðvitað. Það feur sig enginn í rjóðri!

 
TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða senda skilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>