«

»

Molar um málfar og miðla 1973

TÍMAPUNKTUR OG FLEIRA

Sigurður Sigurðarson skrifaði (03.07.2016):

,,Sæll, Hvað finnst þér um þetta sem birtist á mbl.is?

„Ég vissi að ég yrði að taka víta­spyrnu á ein­hverj­um tíma­punkti og ég var með hjartað í munn­in­um. Það er erfitt að setja þetta í orð en ég var yfir mig ánægður að sjá bolt­ann fara inn,“ sagði þessi 26 ára gamli leikmaður Köln­ar.

 

Líklega hefur blaðamaðurinn þýtt erlenda frétt en ræður ekki við að orða hana á íslensku. Hvernig líður þeim sem er „með hjartað í munninum“? Varla er hann að japla á hjörtum að íslenskum sið? Orðalagið er ekki þekkt á íslensku en er til á ensku og getur merkt í þessu tilviki að vera kvíðinn eða hálfhræddur.

… erfitt að setja í orð …

Mjög erumk tregt tungu að hræra … sagði Egill Skallagrímsson forðum í upphafi Sonartorreks. Í fornsögnum segir frá þeim orðvana mönnum sem vefst tunga um höfuð. Nú á tímum eru margir orðlausir yfir góðum árangri fótboltaliðs. Enn aðrir vita ekki hvað skal segja og jafnvel eru þeir til sem eiga erfitt með að orða hugsanir sínar eða tilfinningar fyrir geðshræringu eða einhvers annars. Ekki er mikil reisn yfir þessu orðalagi á mbl.is og bendir til kæruleysis þess sem skrifar.” Þakka bréfið, Sigurður. Þú spyrð hvað Molaskrifara finnist um þetta. Því er einfalt að svara. Þetta er ógott. Enginn metnaður til að vanda sig. Hjartanu í munninum var reyndar seinna breytt í lífið í lúkunum. Einhver fullorðinn komist í textann, en hefði þó getað gert betur.

 
ÓYFIRLESINN TEXTI

Molavin skrifaði (002.07.2016)

,, Tryggvi Páll Tryggvason skrifar á Vísi (visir.is – 2.7.2016): „Innanríkisráðherra Serbíu að gestir kaffihússins hafi að lokum tekist að yfirbuga manninn…“ Fúsk af þessu tagi er orðið tíðara en daglegt brauð. Þegar blaðamenn lesa ekki yfir sinn eigin texta er varla að vænta að yfirmenn geri það. Lesendur sjá þetta hins vegar og ekki eykst orðspor fjölmiðils við þrálátt fúsk.” Þakka bréfið, Molavin. Satt segirðu. Óttalegt fúsk.

NÝYRÐI?

Geir Magnússon skrifaði (02.07.2016): ,,Kæri Eiður

Í viðtali við utanríkisráðherra í mbl.is í dag rakst ég á tvö orð, sem ég man ekki til að hafa séð fyrr.

Hið fyrra er sögnin að formgera og hið seinna nafnorðið viðvera.

Er þetta hinn nýi kansellístíll eða hef ég gleymt að hafa séð þetta áður?” – Þakka bréfið, Geir. Ekki eru þetta nýyrði. Bæði orðin hafa sést áður, en sjálfsagt má kalla þetta  hinn nýja kansellístíl. Tek undir það.

 

ENN VERIÐ AÐ SKILJA

Á fréttavefnum visir.is var (01.07.2016) sagt frá konu, sem varð fyrir því að farpöntun hennar og greiðslukvittun fannst ekki í bókunarkerfi WOW flugfélagsins. Konan komst því ekki um borð í flugvélina þar sem hún átti pantað far og  missti af mikilvægum fundi í London. Flugfélagið vildi ekkert fyrir hana gera fyrr en hægt var að ná sambandi við þjónustuver þess, en þá var flugvélin löngu farin.

Rætt var við talsmann WOOW flugfélagsins,sem sagði: ,, „Þetta var þannig að bókunin hennar fannst ekki í kerfinu hjá okkur. Það er enn verið að skilja hvernig það gat gerst því þetta hefur ekki gerst áður en við höfum endurgreitt henni miðann ….” Æskilegt væri að fyrirtæki veldu sér talsmenn, sem væru betur máli farnir, en þetta dæmi ber vitni um.

http://www.visir.is/missti-af-mikilvaegum-fundi-thvi-bokunin-fannst-ekki-i-kerfi-wow-air/article/2016160709909

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>