«

»

Molar um málfar og miðla 1976

GESTGJAFARUGL RÍKISSJÓNVARPSINS

Óhikað las ágætur fréttamaður í seinni fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (07.07.2016) ambögutexta, sem hin fjölmenna íþróttadeild Ríkisjónvarpsins hefur líklega rétt honum.

 

Fréttaþulur sagði: ,,Gestgjafar Frakka tóku á móti Þjóðverjum í Marseille”. Þetta er dæmalaust rugl eins og áður hefur nefnt hér í Molum. ,,Frönsku gestgjafarnir tóku á móti Þjóðverjum í Marseille.” Frakkar eru / voru gestgjafar þjóðanna ,sem tóku þátt í EM. Hverjir eru annars gestgjafar Frakka? Þetta er ekkert flókið. Þeir sem ekki vita hvað orðið gestgjafi þýðir og kunna ekki að nota það, eiga ekki að skrifa fréttir, sem lesnar eru fyrir þjóðina. Sennilega er málfarsráðunautur í sumarleyfi.

 

BARNAVEIÐISETT

Ekki kann Molaskrifari að meta orðið Barnaveiðisett, sem heyrðist hvað eftir annað í útvarpsauglýsingum á fimmtudag (07.07.2016). Veiðisett fyrir börn. Þetta er eiginlega í sama flokki og eldriborgara afsláttur, sem ærið oft er minnst á í auglýsingum. Það er afsláttur ætlaður eldri borgurum.

Kannski er þetta sérviska hjá Molaskrifara.

 

-LEGA

Flestir eru sjálfsagt orðnir vanir því að heyra íþróttafréttamenn segja sóknarlega og varnarlega. Nú er til siðs að bæta –lega við orð hvenær sem tækifæri gefst. Símstöðvarstjóri Útvarps Sögu sagði á fimmtudagsmorgni (07.07.2016): Prósentulega séð. Það var og!

 

SPJALLA VIÐ

Mjög er í tísku um þessar mundir í útvarpsþáttum að tala um taka spjall við einhvern, þegar ætlunin er að spjalla við einhvern. Ræða við einhvern. Þannig var til orða tekið í Sumarmálum á Rás 1 (07.07.2016). Þetta hefur verið nefnt í Molum áður,

Í þessum sama þætti þótti Molaskrifara það hæpið orðlag, þegar þess var minnst að þennan dag. 7. júlí 1941 hefðu Bandaríkjamenn tekið við vörnum Íslands úr höndum Breta. Þeir hurfu síðan heim nokkru eftir stríð, en komu aftur 1951 en fóru svo enn á ný árið 2006. Þáttarstjórnandi bætti við, efnislega – og vilja koma aftur núna. Hvar hefur sú beiðni komið fram?

 

LEIT AÐ MILLJÓNAMÆRINGI

Fram hefur komið í fjölmiðlum ( til dæmis í Morgunblaðinu 07.07.2016) að Íslensk getspá, fyrirtækið sem rekur Lottóið, sé að leita að heppnum einstaklingi sem fyrir nokkru síðan vann 54,8 milljónir króna. Vinningurinn hefur ekki verið sóttur. Eigandi vinningsmiðans veit ekki að hann vann. Þetta á ekki að geta gerst. Þetta er ríkisstyrkta fyrirtæki (einkaleyfið) kemur ekki heiðarlega fram gagnvart viðskiptavinum sínum.

Ekki veit Molaskrifari betur en ,,stóru happdrættin” Happdrætti Háskólans, DAS og SÍBS tilkynni öllum miðaeigendum, sem hreppa vinning stóran eða smáan og leggi andvirðið inn á bankareikning hins heppna. .

Þannig er það líka, að Molaskrifari best veit hjá norska lottóinu. Þegar keyptur er lottómiði fyrsta sinni, fær kaupandinn kort, á stærð við greiðslukort, sem hann sýnir, þegar hann seinna kaupir miða. Þar með er vitað hver keypti miðann og tryggt ef vinningur kemur á miðann þá ratar upphæðin til þess sem keypti. .

Hversvegna gerir Íslensk getspá þetta ekki svona? Þá er tryggt að allir fá sitt. Engir ósóttir vinningar. Er hér verið, að spila á það að ef til vill verði vinningar ekki sóttir? Hver græðir á því? Hvað liggur mikið fé í ósóttum vinningum hjá Íslenskri getspá?

 

http://www.visir.is/islensk-getspa-leitar-ad-milljonamaeringi/article/2016160709344

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Mér finnst samt að Lottóið ætti að skrá þetta eins og skylt er í Noregi. Það er afar einfalt mál, ef menn vilja að allir vinningar komist til skila.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Þetta með lottóið. Þannig stendur á því að lottó veit ekki hver kaupir miða í lausasölu. Væri nafn manns, karls eða konu, skráð í hvert sinn sem einhver kaupir miða væri þetta ekkert mál, en nú er svo ekki. Mönnum er heimilt að kaupa miða nafnlaust. Séu miðar hins vegar keyptir í áskrift, eins og er í happdrættunum sem þú nefnir, fær viðkomandi tölvupóst og andvirðið er lagt á bankareikning viðkomandi. Þetta veit ég því nokkrum sinnum hafa bæst nokkrir hundraðkallar á reikninginn minn í kjölfar póstsendingar á sunnudegi.
    En sá sem kaupir miða nafnlaust verður vitaskuld að hafa rænu á því að athuga sjálfur hvort hann hefur fengið vinning, en lottóið gerir það sem það getur til að finna vinningshafann með auglýsingum og upplýsingum um hvar og hvenær miðinn var keyptur. Og sú ágæta kona sem stóra vinninginn fékk hefur þegar gefið sig fram, og á tuttugu afkomendur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>