«

»

Molar um málfar og miðla 1979

AÐ SPYRNA SAMAN MÁLUM!

Í kvöldfréttum sjónvarps (11.07.2016) var rætt við talsmann kúabænda um stjórnvaldssektina, sem MS hefur hlotið og nýja búvörusamninga, sem koma til kasta Alþingis í sumar.

Fréttamaður sagði: ,, … þannig að þingmenn spyrni saman tveimur ólíkum málum og greiði atkvæði gegn samningunum” – Búvörusamningunum.

Hér óskiljanlegt rugl á ferð. Að spyrna saman málum! Molaskrifari hefur reyndar á tilfinningunni, að þetta hafi heyrst áður í Ríkisútvarpinu. Skyldu þetta vera áhrif frá íþróttadeildinni? Fréttamaður hefur hér ætlað að tala um a spyrða saman tvö mál, – tengja saman tvö mál, en ekki kunnað betur til verka svo, að úr verður hrein merkingarleysa, vitleysa.

Nafnorðið spyrða er notað um tvo fiska, sem bundnir eru saman á sporðunum eða , band, lykkju sem notuð er til verksins. Fiskur sem átti að láta síga eða herða var spyrtur og spyrðan hengd upp.

Málfarsnautur þarf að leiðbeina þeim sem hér átti hlut að máli.

 

PRÝÐILEG UMFJÖLLUN

Prýðileg umfjöllun um nokkur mikið notuð sagnorð var í Málskoti málfarsráðunautar á Rás tvö á þriðjudagsmorgni (12.07.2016) . Meðal annars um sögnina að versla, sem er ekki áhrifssögn, tekur ekki með sér andlag. Þess vegna er ekki rétt að tala um að versla sér föt, eða mat. Við kaupum mat og kaupum okkur föt. Einnig var talað um ofnotkun sagnarinnar að elska og sögnina að drífa (sig). Ég verð að fara að drífa mig, – verð að fara að koma mér af stað. Þessir pistlar mættu vera oftar á dagskrá.

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi talaði fréttamaður svo um að versla inn mjólkurvörur og versla inn í matinn. Það er til lítils fyrir Ríkisútvarpið að vera með málfarsleiðbeiningar, ef þeir sem mest þurfa á að halda , – eins og sumir starfsmenn stofnunarinnar, hlusta alls ekki á það sem verið er að segja. Hálf dapurlegt, – svona sama daginn.

Es. Og í seinni fréttum Ríkissjónvarps talaði formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna um frelsi til að versla drykkjarföng. Það er auðvitað dýrmætasta frelsið!

 

MEIRI REGLU

Það ætti ekki að vera Ríkissútvarpinu ofviða að vera með stutta fréttatíma á heila tímanum allan sólarhringinn. Fréttir á klukkutíma fresti. Erfitt er að sjá fasta reglu um fréttatíma í Ríkisútvarpinu.. Til dæmis gilda aðrar reglur um fréttatíma um helgar en virka daga. Frá því klukkan tvö að nóttu fram til klukkan fimm að morgni eru engar fréttir fluttar í útvarpi. Samt er fréttamaður/menn á vakt alla nóttina. Miklu frekar er þetta sennilega skipulagsatriði/verkstjórnarmál fremur en að þessu fylgi svo mikill kostnaður að Ríkisútvarpið ráði ekki við það.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>