«

»

Molar um málfar og miðla 1983

NÚ ER HÚN SNORRABÚÐ STEKKUR

Molavin skrifaði (17.07.2016): ,,Morgunblaðið hefur ekki lengur metnað til fréttaskrifa, jafnvel ekki til fréttaþýðinga. Í dag (17.7.2016) segir í frétt: „Bróðir pak­ist­anskr­ar sam­fé­lags­miðla­stjörnu, sem var drep­in á föstu­dag­inn, hef­ur verið hand­tek­inn og viður­kennt að bera ábyrgð á dauða henn­ar.“

Stúlkan, sem um ræðir, var ekki skepna og því hvorki felld né drepin. Hún var myrt að yfirlögðu ráði. Bróðir hennar hefur viðurkennt verknaðinn. Að segjast „bera ábyrgð á dauða hennar“ er pempíulegt orðalag. Hann hefur viðurkennt að hafa myrt hana.

Þarna er því miður enn sem oftar dæmi um illa hugsuð skrif og ónákvæm. Morgunblaðið hefur fyrir þó nokkru hætt að reyna að vera til fyrirmyndar. Nú er hún Snorrabúð stekkur.”

AFTAKA FRÖNSKU LÖGREGLUNNAR

Sveinn skrifaði (15.07.2016): ,,Birta myndband af aftöku árásarmannsins.
Svona orðaði DV fyrirsögn fréttar um tilvist myndbands af skotbardaga frönsku lögreglunnar og árásarmannsins í Nice. Fyrisögninni var vissulega breytt, en í þrjár klukkustundir hélt DV því fram að franska lögreglan hefði hreinlega tekið árásarmanninn af lífi.
Kannski má hrósa DV fyrir að leiðrétta fyrirsögnina en ætti þess ekki að vera getið eða lesendur beðnir afsökunar á því að svona hafi verið tekið til orða?
Þá breytist slóð fréttarinnar ekki því hún virðist enn vísa á myndband af aftöku árásarmannsins. “
http://www.dv.is/frettir/2016/7/15/birta-myndband-af-aftoku-arasarmannsins/

Þakka bréfið, Sveinn. Það er því miður allt of algengt að ambögur og villur rati inn á fréttasíður netmiðlanna , – vegna þess að enginn les yfir áður en birt er. Hending virðist ráða hvort villur eru leiðréttar, eður ei. Aldrei hef ég séð beðist velvirðingar á villum af þessu tagi. Að undanförnu hefur mér sýnst að á mbl.is séu menn heldur fljótari að taka við sér og leiðrétta augljósar málvillur, en áður var. Það er auðvitað lofsvert, en yfirlestri er enn ábótavant.

 

X OG Y – LITNINGAR

Ingibjörg skrifaði (14.07.2016):

,, Sá sem skrifar þessa frétt hefur greinilega ekki lært líffræði. Það er Y-litningurinn sem orsakar það að fóstur verður að dreng. Stúlkur eru með XX, en drengir XY. Greinilega er sjúkdómurinn bundinn við Y-litning, fyrst það eru aðeins drengir sem fá hann.

Ég hélt að það lærðu allir e-ð í líffræði í menntaskólum, a.m.k. gerðum við það í máladeildinni í MR. Þessi fréttaskrifari virðist ekki hafa stúdentspróf.

Úr fréttinni:

Engin lækning er til við Duchenne-sjúkdómn um sem bundinn er við X-litning og eru það því nær einungis drengir sem greinast með sjúk dóm­inn. Ákveðið prótín vant ar í vöðva þeirra sem greinast með sjúkdóm inn, sem veldur rýrnun vöðvanna.”

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/14/engin_laekning_fyrir_synina/

AÐ LOKA – AÐ LJÚKA

Í fréttum Stöðvar tvö (16.07.2016) sagði fréttaþulur: ,, … og var þessu lokað með grillveislu”. Hann átti við að skemmtidagskrá, Skógarleikunum í Heiðmörk, hefði lokið með grillveislu. Leikunum var ekki lokað. Það var meinloka fréttamanns.

GOTT ÞEGAR LEIÐRÉTT ER

Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins (16.07.2016) var sagt frá ástandinu í Tyrklandi, og sagt að í lögum þar væri bann við dauðarefsingu, en síðan sagði þulur: ,, …. gefið til kynna að þeim lögum kynni að vera breytt”. í fréttum klukkan sex var búið að leiðrétta þetta og þá var réttilega talað um að þeim lögum kynni að verða breytt. Einhver með góða máltilfinningu hefur heyrt, eða lesið yfir og leiðrétt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>