«

»

Molar um málfar og miðla 1986

ATHVARF Á EIGIN STAÐ

T.H. skrifaði (20.07.2016):
„Húsbílafólk fær athvarf á eigin stað í Gufunesi“
Hér virðist ,sem að hugsað sé á erlendu tungumáli, þó reynt sé að skrifa á íslensku, því vart getur hér verið um að ræða þýðingu af erlendum fjölmiðli.

http://www.visir.is/husbilafolk-faer-athvarf-a-eigin-stad-i-gufunesi/article/2016160719057

Þakka ábendinguna, T.H.

 

FÆREYJAR Á VEÐURKORTIÐ

Molaskrifari hrósaði á dögunum  nýjum búningi, nýrri tækni við framsetningu veðurfrétta í Ríkissjónvarpinu. Þar er þó galli á gjöf Njarðar. Í veðurfréttum í kjölfar seinni frétta er jafnan birt Evrópukort. Molaskrifari saknar þess, að þar skuli ekki birt hitastig í Færeyjum og nafn Þórshafnar. Úr þessu ætti að vera auðvelt að bæta. Meira að segja BBC er búið að bæta Reykjavík og hitastigstölum frá okkur á sitt Evrópukort.

 

FÁRÁNLEG FYRIRSÖGN

Dæmi um fáránlega fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. (21.07.2016): Ferðaþjónusta í Eyjum dettur niður um veturinn.

http://www.ruv.is/frett/ferdathjonusta-i-eyjum-dettur-nidur-um-veturinn

Dettur niður um veturinn? Enginn fullorðinn á vaktinni?

 

STÖÐUVATN STENDUR

Hér er svo annað bréf frá T.H. þar sem vísað er til fréttar á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/20/drottningin_skodud_med_nedansjavardrona/

„… þar sem Tahoe stöðuvatnið stend­ur …“
“ … rann skipið niður bakka …“
„Skipið stóð enn upp­rétt …“
T.H. segir: ,, Um þetta er það helst að segja að vatn getur ómögulega STAÐIÐ á nokkurn hátt, en það ER náttúrlega einhversstaðar. Líklegt má telja af lýsingunni að skipið hafi runnið niður BREKKU á vatnsbotninum, eftir að hafa verið sökkt, en hvernig skipið stendur UPPRÉTT er mér ráðgáta. Er það upp á endann og þá hvorn, eða skyldi hér kannski vera átt við að skipið hafi enn verið Á RÉTTUM KILI?
Greinin er að auki uppfull af öðrum villum. Er virkilega enginn fullorðinn á vaktinni, sem getur lesið yfir?” Ekki getur Molaskrifari svarað því, en þarna hefur enginn lesið óvitaskrifin yfir. Þarna skortir metnað til að gera vel. Það er miður.

 

UM ÞÝÐINGAR OG FLEIRA

Ingibjörg skrifaði (20.07.2016): ,,Sæll Eiður

Eftirfarandi frétt er á ruv.is og var líka lesin í útvarpið kl.10, en ekki kl.11. Þarna er greinilega verið að þýða beint enska orðið „abuse“ sem þýðir einfaldlega „ill meðferð“. Líklega er vísað til þess að mennirnir hafi verið barðir, og ill aðbúð hafi verið í fangelsunum. En orðið „misnotkun“ á íslensku er aldrei haft um barsmíðar, heldur um kynferðislega misnotkun. Ekkert í fréttinni bendir til slíks.

Mannréttindi hafa átt á brattann að sækja í Tyrklandi eftir valdaránstilraun síðastliðinn föstudag. 208 manns létust og yfir 50.000 manns voru handteknir og sagt upp störfum. Amnesty International rannsakar nú vitnisburði um að fangar í Ankara og Istanbúl hafi mátt sæta misnotkun, þar á meðal illri meðferð, í varðhaldi og verið neitað um aðgang að lögfræðingum.“

 

P.S. Fréttin um drengina og X-litningana ( asem nefnd var í Molum í vikunni) virðist hafa verið fljótlega tekin út. Það má Moggi eiga að hann bregst við athugasemdum, það hef ég oft séð áður, að villur eru leiðréttar eftir að bent er á þær. En ástandið er sérstaklega slæmt á sumrin, og alls ekki bundið við þýðinga- og málvillur. Og Ríkisútvarpið gerir sig líka sekt um villur. “ Kærar þakkir fyrir bréfið, Ingibjörg.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Prufa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>