«

»

Molar um málfar og miðla 1988

ÞARFAR ÁBENDINGAR OG HUGLEIÐING

JT skrifaði Molum (21.07.20016): ,,Af hverju getur Vegagerðin, af öllum fyrirtækjum, ekki haft skilgreiningar á vegum og götum á hreinu. Í frétt af framkvæmdum á Hellisheiði 21. júlí (í fyrirsögn sagt frá vinnu á Hellisheiði og Suðurlandsvegi yfir kvöldið og nóttina – hefði frekar átt að vera: … í kvöld og fram á nótt….) er talað um að malbika Suðurlandsveg við gatnamót Biskupstungnabrautar. Vegir í vegakerfinu úti á landi eru með vegamótum en gatnamót eru í þéttbýli. (sjá klausu að neðan).

Og fyrst ég er byrjaður, smá hugleiðing um almenna notkun á lýsingarorðum til áhersluauka. Oft eru sagðar fréttir af ófærð og tilgreint að mikil ófærð sé hér og þar. Hér finnst mér orðið mikil óþarfi. Ef ófærð er stundum mikil er hún þá ekki stundum lítil? Ef það er ófærð er þá ekki nánast ófært? Þarf að segja mikil eða lítil? Það væri hægt að segja þæfingur, þung færð, erfið færð. En ófærð er ófærð og það þarf ekkert að styrkja það með aukaorðum. Á sama hátt er stundum talað um mannfjölda og sagt mikill mannfjöldi. Er ekki mannfjöldi frekar margir menn? Fjöldi manna. Fjöldi manna safnaðist saman hér eða þar – óþarfi að segja mikill fjöldi… Við gengisfellum stundum góð og gild nafnorð sem eru mjög lýsandi með óþarfa lýsingarorðaflaumi.

Enn eitt: Beygingakerfi íslenskunnar er þannig að nafnorð í eintölu er yfirleitt öðru vísi en í fleirtölu. Sagt er til dæmis frá slysi og tilgreint að þrír sjúkrabílar voru sendir á staðinn, tveir slökkviliðsbílar og einn lögreglubíll. Hér er ,,einn“ óþarfi – nóg að segja… og lögreglubíll… annars væri sagt bílar. Þetta finnst mér dæmi um óþarfa orð í texta en yfirleitt er textinn betri því knappari sem hann er. Ég held að þetta falli undir hugsunarleysið og skort á yfirlestri sem þú bendir svo oft og réttilega á. Það á ekki að taka meiri tíma að skrifa vandað mál. Yfirlesturinn tekur heldur ekki nema örfáar mínútur. Kv. jt

PS: Minni svo enn og aftur á tímasetningar í fréttum af atburðum erlendis og þá lensku að ,,íslenska“ tímasetninguna… klukkan 14 að íslenskum tíma. Það þarf ekki að rifja upp fyrir blaðamönnum regluna um hvar, hvenær, hvernig og allt það. Hvenær skiptir máli við frásögn af atburði og þá hvenær þar sem hann gerðist – ef við erum að tala um atburð erlendis. Íslenskur tími má alveg fylgja en hann skiptir ekki máli. Mér finnst RÚV verst haldið af þessum ósið en örfáar góðar undantekningar eru þó á því þar. – Kv jt
Molaskrifari þakkar JT þessar ágætu ábendingar og hugleiðingar. Skrifari minnist þess að á Alþýðublaðsárunum skrifaði hann stundum leiðara og pólitíska punkta í blaðið. Benedikt Gröndal ritstjóri las handritin ævinlega áður en þau fóru til setjarans. Hann kenndi skrifara að strika út mjög og mikið, – sagði það óþörf orð. Það segir líka í ,,litlu bókinni”, Elements of Style eftir E. B. White, sem allir blaðamenn ættu að lesa. Flest af því sem þar er sagt um skrif á

ensku á einnig við um skrif á íslensku.

 

PÍLAGRÍMI!

Í fréttum Stöðvar tvö ( 24.07.2016) var sagt frá Skálholtshátíð. Rætt var við mann sem sagður var pílagrími. Pílagrímur er rétta orðið.

Pílagrímur, segir orðabókin, er maður sem er að fara eða hefur farið til helgs staðar. Pílagrímar gengu til Skálholts, sem er helgur staður.

Það er ekkert til sem heitir pílagrími,nema þágufallsmynd orðsins pílagrímur, sem þarna átti ekki við.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>