AÐ SKEMMTA SÉR
Vonandi hafa margir skemmt sér vel um verslunarmannahelgina. Slys, slagsmál, ölvun og eiturlyfjaneysla varpa þó skugga á hátíðahöldin. Eins og oftast nær , – því miður. Munur var á fréttum frá Flúðum og Borgarnesi. Á Flúðum virtist fyllerí í algleymingi en í Borgarnesi skemmti ungt fólk sér án vímuefna á unglingalandsmóti UMFÍ.
En hafið þið tekið eftir því, lesendur góðir, að nú er fólk eiginlega hætt að tala um að skemmta sér? Nú er talað um að hafa gaman, hafa gaman saman. Hrátt úr ensku. Í útvarpsfréttum var haft eftir lögreglu að fólk hefði skemmt sér fallega. Er það ekki ágætt orðalag?
LÁGFLUG
Vinur Molanna, V., sendi eftirfarandi (01.08.2016): „Maðurinn var á ferð ásamt öðrum einstaklingi þegar hann féll í vatnið. Um slys var að ræða samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Hinn einstaklingurinn hafði samband við neyðarlínuna.“ (mbl.is 1/8/2016 kl. 7:30) – Þarna er nú ekki hátt flogið í stílbrögðum finnst mér. En þetta er ekki einsdæmi, því miður. Einstaklingar og meðlimir fara með himinskautum í fréttum nú til dags. Leitt ef prófarkalestur er fyrir bí og ritstjórar sjá ekki til þess að orðabækur séu við höndina á ritstjórnum handa þeim sem sváfu í íslenskutímum í barnaskóla, en vildu svo allt í einu verða blaðamenn.” – Kærar þakkir fyrir bréfið. Engu við þetta að bæta.
ÁREKSTUR VIÐ SKÓGARSTRÖND
Fjögurra bíla árekstur við Skógarströnd, sagði í fyrirsögn á mbl.is á laugardag (30.07.2016). Áreksturinn varð á veginum um Skógarströnd. Áreksturinn varð ekki við Skógarströnd. Kannski er landafræðikunnáttu eitthvað ábótavant eða reglum og venjum um notkun forsetninga. Betri fyrirsögn hefði til dæmis verið: Fjögurra bíla árekstur á Skógarstrandarvegi.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/30/fjogurra_bila_arekstur_vid_skogarstrond/
FORSETNINGAR OG GIGGS
Oft heyrist forsetninganotkun,sem maður á ekki að venjast.
Á Rás tvö (30.06.2016) var rætt við skemmtikraft, sem sagðist hafa verið á Borgarnesi í ferðalagi. Föst málvenja er að segja í Borgarnesi. En hins vegar er sagt á Akranesi. Kannski á maður eftir að heyra sagt í Akranesi! Sá sem rætt var við hafði verið á ferðalagi í Borgarnesi. Útvarpsmaðurinn kvaddi svo viðmælanda sinn eitthvað á þessa leið: Gangi þér svo vel með þau giggs sem þú átt eftir. Var þetta ekki allsendis óþörf sletta ?
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins (31.07.2016) var talað um mannréttindagiggið og loftslagsgiggið. Er kannski Reykjavíkurbréfið orðið einhverskonar sunnudagsgigg Morgunblaðsins?
ENGINN LAS YFIR
Eftirfarandi er úr frétt á vef Ríkisútvarpsins á laugardagsmorgni (30.07.2016): ,, Farþegar frá Kanada og Bandaríkjunum, sem millilenti hér á landi, sat fastur á landinu í tæpan sólarhring og var mikil reiði meðal farþega.” Enginn las yfir áður en birt var. Ekki frekar en fyrridaginn. Kannski var enginn fullorðinn á vakt.
Fréttin var um næstum sólarhringsseinkun á flugi hjá flugfélaginu WOW . Talsmaður félagsins var ekki viðtals um morguninn að því er kemur fram í fréttinni. Áður hafði talsmaðurinn lagt mikla áherslu á að vélin sem bilaði væri Boeingvél, – líklega var þessi starfsmaður WOW að skjóta á Icelandair sem notar Boeing vélar. Heldur hallærislegt. Það er það aumasta af öllu aumu, þegar talsmenn fyrirtækja , fjölmiðlafulltrúar, svokallaðir, fela sig fyrir fjölmiðlum þegar á móti blæs.
http://www.ruv.is/frett/naestum-solarhrings-seinkun-a-flugi-wow-air
FJÖLDI
Heildarfjöldi gistinátta voru … las þulur án þess að hika í hádegisfréttum Ríkisútvarps á fimmtudag (28.07.2016). Þetta hefði átt að vera: Heildarfjöldi gistinátta var, eða – gistinætur voru. Hvers vegna að tala um fjölda gistinátta? Þarna skorti yfirlestur og aðgát, – og að þulur hlustaði á sinn eigin lestur, – örugglega vissi hann betur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar