NEIKVÆTT OG JÁKVÆTT – EITT OG ANNAÐ
Sigurður Sigurðarson skrifaði (02.08.2016):
,,Sæll,
Fjölmiðlafulltrúi frá samgöngustofu fullyrti um verslunarmannahelgina að slys hefði orðið á Snæfellsnesvegi við Skógaströnd. Þú bentir á að sama orðalag hefði verið í frétt hjá Ríkisútvarpinu. Landafræðiþekkingin er víða takmörkuð.
Í fyrirsögn á visir.is segir: „Sprengjan í Borgarnesi gerð óvirk með sprengjuhleðslu“. Þetta er einfaldlega rangt., sprengjan var ekki gerð óvirk, þvert á móti var hún sprengd með annarri sprengju.
Í fréttinni segir:
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru kallaðir á staðinn þegar lögreglu barst tilkynning um málið í dag. Þeir gengu úr skugga um að enginn væri nærri svæðinu og gerðu kúluna því næst óvirka. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var það gert með sprengjuhleðslu með það að markmiði að leysa ekki úr læðingi fulla virkni kúlunnar.
Þvílík steypa sem þetta er. Líklega hefði mátt einfalda málið með því að orða tilvitnuna á þessa leið: Lögreglan óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar sem sendi sérfræðinga í Borgarnes. Sprengjan var síðan sprengd án þess að hætta stafaði af.
Í fyrirsögn á dv.is segir: „Hekla á næsta leik og það með gosi.“
Fyrirsögnin er einfaldlega rugl. Annað hvort gýs Hekla eða ekki. Hvaða leik gæti blaðamaður verið að hugsa um sem leikinn væri „með gosi“. Og hver átti leik á undan Heklu?” – Kærar þakkir fyrir bréfið og ábendingarnar, Sigurður.
AÐ BERA SIG VEL
Sá ágæti íslenskumaður Björn Bjarnason skrifaði í bloggdagbók sína (01.08.2016): ,,Forsetahjónin voru í hátiðarklæðnaði, hann í kjólfötum með heiðursmerki og hún í skautbúningi. Báru þau sig vel.”
Einhverjum kann að finnast það einkennilega til orða tekið að segja að forsetahjónin hafi borið sig vel. Svo er þó hreint ekki. Að bera sig vel, er ekki aðeins að taka mótlæti með hugrekki. Orðabókin segir nefnilega: ,, Koma fram af reisn (bæði um framgöngu og limaburð og hugarfar í raunum). “ Þetta er vel orðað hjá Birni.
MEÐLIMIR Í NEFNDUM
Úr frétt á mbl.is (02.08.2016) ,, Allir meðlimir í nefndum sem eru á vegum sambandsins var vikið frá störfum yfir síðustu helgi til að hægt væri að athuga hvort einhverjir væru tengdir valdaráninu.” Nógu slæmt er að tala um meðlimi í nefndum þó ekki bætist við beygingarvilla í byrjun setningar. Á að byrja á öllum ekki allir. Öllum nefndarmönnum á vegum sambandsins var vikið frá störfum. Illa komið fyrir Mogga.
http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2016/08/02/94_reknir_i_tyrklandi/
MORGUNSÁRIÐ
Rafn skrifaði (04.08.2016): ,,Sæll Eiður
Það má skilja af málfarsmolum nr. 1994, að þú teljir morgunsár vera morgun-sár, samanber tilvitnun í bókarheiti Jónasar E. Svafárs.
Þetta er his vegar eignarfallssamsetning, ár morgunsins og hefir ekkert með sár að gera. Hins vegar er þarna vísað til fyrsta hluta morgunsins, árs hans. Það er því varla alrangt að breyta samsetningunni í stofnsamsetninguna morgunárið, þótt morgunsárið sé vissulega viðtekin mynd orðsins.
Í Orðabók Menningarsjóðs er orðið ritað morguns|árið með lóðréttu striki til að marka samsetninguna og í Stafsetningarorðabók frá 2006 er orðinu skipt millli lína sem morguns-árið. Það er því ekki til skilningsauka fyrir lítt fróða lesendur að vísa til morgun-sárs Jónasar E. Svafárs, hvort heldur titillinn þykir skondinn eður ei.”
Molaskrifari þakkar bréfið. Hefur því einu við að bæta að vísan til heitis ljóðabókar Jónasar E. Svafárs var svona til gamans, – en ekki hafa kannski allir áttað sig á því ! Skrifari misskildi hvorki eitt né neitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
05/08/2016 at 16:10 (UTC 0)
Nei, því miður, Árni, ég er ekki klókur í þessum efnum. Þegar ég er að leita að einhverju reynist mér best að gúggla setninguna í þeirri mynd, eða sem næst því sem ég man hana. Það ber stundum árangur. Þetta er örugglega einhversstaðar í iðrum netheima , – allt á að vera geymt, ekkert gleymt, er manni sagt. K kv Eiður
Árni Björnsson skrifar:
05/08/2016 at 10:42 (UTC 0)
Um daginn kringum 20. júlí rakst ég í einhverju blaði á samtal við listakonur á Kaldadalsvegi sem töluðu um skjaldbreiður í kvenkyni fleirtölu. Ég hélt fyrst þetta væri ásláttarvilla en sá svo að þetta kom tvívegis fyrir. Með fylgdi mynd af fjallinu Skjaldbreið úr lofti og virtist það harla flatneskjulegt. Nokkrum dögum seinna ætlaði ég að finna þetta dæmi, en finn ekki þrátt fyrir margflettur í Mbl., Fréttablaði. Fréttatíma, Stundinni og Bændablaðinu. Þetta getur ekki verið draumur því kona mín man að ég nefndi þetta.
Kannt þú nokkra leið til að leita þvílíkt uppi?