«

»

Molar um málfar og miðla 2009

ÞINGMANNAVIÐTÖL

Í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (23.08.2016) var rætt við tvo þingmenn, varaformann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Guðlaug Þór Þórðarson og formann Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur.

Guðlaugur Þór var fyrst spurður hvort ósamstaða væri í ríkisstjórninni. Hann vék sér fimlega undan að svara. Aftur var hann spurður um þau ummæli Katrínar, að stjórnarflokkarnir væru að færast fjær hvor öðrum. Enn kom Guðlaugur sér snyrtilega undan því að svara spurningunni. Hann fylgdi þeirri  klókindareglu margra pólitíkusa að segja það sem hann vildi án þess að gefa  spurningunni of mikinn gaum !    Það merkilega var að fréttamaður lét sér þetta bara vel líka. Skondið   á sinn hátt. En þegar allir heyra að spurningu(m) er ekki svarað á auðvitað að ganga eftir svörum.

Þingfundi var löngu lokið, en hversvegna var þetta viðtal  í beinni útsendingu úr þinghúsinu?

Það gaf því ekki aukið gildi eða vægi á neinn hátt.

 

VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU

Í Morgunblaðinu rís virðingin fyrir móðurmálinu jafnan hæst í pistlunum sem kallaðir eru Smartland Mörtu Maríu. Þar voru þessar fyrirsagnir í vikunni (22.08.2016) ,, Mig dreymir um að verða ,,Wedding planner” ” , og ,, Kennir spinning sex sinnum í viku

Þarna fer ekki mikið fyrir metnaði til að skrifa vandaðan texta fyrir lesendur Morgunblaðsins.

 

KJÖRTÍMABILIÐ

Í fréttum Ríkissjónvarps (23.08.2016) var rætt við Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra. Hún sagði: ,,Við erum núna samtaka í því að klára þetta kjörtímabil”. Þetta var einnig haft eftir henni í inngangi að fréttinni.

Nú á að kjósa í lok október, en kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en næsta vor. Kjörtímabilið er fjögur ár. Ríkisstjórnin boðar til kosninga áður en kjörtímabilinu lýkur. Hún ,,klárar ekki kjörtímabilið”. Hvaða rugl er þetta?

 

 

 

ENDURTEKNINGAR

Mörgum finnst sjálfsagt að í þessum Molum um málfar sé nokkuð um endurtekningar. Ekki skal ég neita því. Það er vegna þess að sömu villurnar sjást aftur og aftur í fjölmiðlum og skrifari trúir enn hinu forna sannmæli að dropinn holi steininn.

Það er hinsvegar dapurleg staðreynd að fjölmiðlar á heildina litið (Heilt yfir er víst tíska að segja !) virðast ekki hafa metnað til að gera vel og vanda málfar.

Það vantar verklagsreglur og vönduð vinnubrögð. Mishæfir nýgræðingar, viðvaningar skrifa fréttir, sem síðan eru birtar okkur án þess að nokkur hafi lesið yfir eða leiðrétt augljósar villur.

Sanngjarnt er að geta þess að við fjölmiðla starfar fjöldi vel menntaðra , vel skrifandi og vel talandi karla og kvenna. Skussarnir eru bara of margir. Þeir virðast ekki fá tilsögn eða leiðbeiningar. Það er miður. Það þarf að breytast. Það er alvarlegur stjórnunarvandi, fjölmiðlar glíma við.

 

…. Vegna tölvuvandræða verða Molar eitthvað strjálli á næstunni.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>