FÚSK
Molavin skrifaði (20.09.2016):,, Það er dapurlegt þegar blaðamenn „leiðrétta“ rétt mál viðmælenda sinna og gera það að röngu máli. Á Vísi skrifar Tómas Þór Þórðarson frétt um kvennalandsliðið í knattspyrnu og tekur viðtal við Frey Alexandersson, landsliðsþjálfara. Í myndskeiðinu sem fylgir segir Freyr réttilega: „Við hlökkum mikið til að vinna Skotana….“ en í skrifaðri frétt Tómasar hefur hann eftir Frey þetta: „Okkur hlakkar mikið til að vinna Skotana…“
Það verður því miður að segjast eins og er; slæm íslenzkukunnátta og almennt fúsk er orðið ríkjandi á fjölmiðlum og yfirmenn virðast litlu skárri.”
Kærar þakkir fyrir þarfa ábendingu, Molavin.
SKÝRSLAN SEM EKKI VAR SKÝRSLA
Molaskrifari er sjálfsagt ekki einn um að hafa hlustað dolfalllinn á fréttir um skýrsluna svokölluðu um það sem kallað hefur verið,,einkavæðing bankanna hin síðari”.
Fyrst boðuðu formaður fjáralagnefndar og varaformaður og meirihluti nefndarinnar blaðamenn á sinn fund til að kynna nýja skýrslu með upplýsingum um allskonar slæm og gott ef ekki glæpsamleg mál og sagt var að ýjað hefði að landráðum.
Svo fór að kvarnast úr meirihlutanum. Svo reyndist varaformaður fjárlaganefndar maður til að biðjast afsökunar á orðum, sem viðhöfð voru í plagginu. Loks sat formaður fjárlaganefndar einn uppi með samantektina, sem áður var kynnt með svo miklu brauki og bramli.
Áður hafði forseti Alþingis gert athugasemdir við upphaf þingfundar um framsetningu og kynningu plaggsins, sem væri ekki skýrsla heldur samantekt. Fyrir það fékk hann köpuryrði (eins og sagt var í sjónvarpsviðtali (21.09.2016)) frá formanni fjárlaganefndar, sem var með tilburði til að setja ofan í við forseta þingsins.
Þetta er allt með hreinum ólíkindum og ótrúlegt að fylgjast með þessari framgöngu á Alþingi. Sennilega er allt þetta einsdæmi. Eru þau ekki verst?
GULLVÆGT
Þessi setning er af visir.is: ,, Fólk getur oft á tíðum verið misölvað og ræður einnig misvel við það ástand”. http://www.visir.is/hrakfarir-olvadra-ira-sla-i-gegn/article/2016160929942
UPPRIFJUN
Hér var í Molum nýlega (Molum 2018) fjallað um óþarfa og oft kjánalega þolmyndarnotkun, þegar betra væri að nota germynd. Af því tilefni sendi Snorri Zóphóníasson þessar línur (21.09.2016):
,,Sæll.
Við lestur greinar þinnar um þolmynd-germynd datt mér i hug frétt sem ég sá í Morgunblaðinu fyrir mörgum áratugum. Hluti úr henni hljóðaði svo: „Konungi var afhent kvæði skráð á skinn af Jörundi Pálssyni.“ – Þakka bréfið, Snorri , – góð upprifjun ! Vesalings Jörundur !
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar