«

»

Molar um málfar og miðla 2034

SPRENGJUSANDUR

Á fréttavefnum visir.is (15.10.2016) er frétt þar sem vitnað er í grein eftir Kára Stefánsson, sem birtist í Fréttablaðinu þann sama dag. Þar skrifar Birgir Örn Steinarsson: Kári vísar í viðtöl við Bjarna í Morgunblaðinu og á Sprengjusandi sér til stuðnings.  Fréttaskrifari er hér væntanlega að vísa til útvarpsþáttarins Á Sprengisandi  sem  Sigurjón  M. Egilsson  gerði vinsælan á Bylgjunni. En það voru reyndar stundum fréttabombur, skúpp, eða áður óbirtar stórfréttir í þessum þáttum Sigurjóns.  Kannski hefði hann átt að kalla þáttinn  sprengjusand en ekki Sprengisand.

http://www.visir.is/kari-stefans-hvetur-bjarna-til-thess-ad-segja-af-ser/article/2016161019107

 

 

AÐ SÆKJAST EFTIR

Undir þinglokin heyrðist talsmaður Pírata segja: ,,Við sækjumst ekki á eftir völdum”. Þetta er ekki rétt. Það er talað um að sækjast eftir einhverju, –  ekki sækjast á eftir einhverju. – En til hvers er fólk í pólitík, ef ekki til að sækjast eftir völdum til að koma fram breytingum, hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd?

 

ÚR

Fyrirtækið Epli auglýsti (14.10.2016) nýja gerð tölvuúra í Ríkisútvarpinu með orðunum Apple watch. Hversvegna nota ensku? Enn einu sinni brestur dómgreind þeirra, sem taka við auglýsingum í Efstaleitinu.

 

FÆREYJAR

Hitastigið í í Færeyjum komst inn á Evrópukortið í veðurfréttum Einars Sveinbjörnssonar í Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld (14.10.2006) og er þar áfram.. Takk fyrir það.

 

MÁLFRELSIÐ

Á sunnudagsmorgni (16.10.2016) hlustaði skrifari stundarkorn á endurfluttan símatíma í Útvarpi Sögu. Þá var í símanum maður, sem fann múslímum ekki allt til foráttu. Eftir svolitla stund sagði símstöðvarstjórinn Pétur, að maðurinn væri búinn með tvöfaldan eða þrefaldan þann tíma, sem símtölum væri ætlaður. Svo kvaddi hann og sleit símtalinu. Síðan kom svolítil tónlist og svo auglýsing frá Útvarpi Sögu þar sem hlustendur voru hvattir til að greiða fé inn á reikning stöðvarinnar í  tilgreindum banka til þess að styrkja málfrelsið. Skondið. Má ekki kalla þetta tvískinnung, tvöfeldni?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>