HROÐVIRKNI EÐA FÁFRÆÐI?
Er það hroðvirkni eða fáfræði, vankunnátta í íslensku, sem veldur því að fréttasskrifarar láta frá sér svona texta: ,, Rúmlega fimmtíu lík hafa fundist eftir að farþegaferja hvolfdi á ánni Chindwin í Búrma á laugardaginn.” ?
Þetta er úr frétt á mbl.is (19.10.2016). http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/10/19/tugir_letust_thegar_yfirfull_ferja_sokk/
Ferjan hvolfdi ekki. Ferjunni hvolfdi. Hvar er máltilfinningin? Víðs fjarri.
NIÐURSKURÐUR LÖGREGLUMANNA
Úr frétt í Fréttablaðinu (20.10.2016): Lögreglan á Vesturlandi hefur þurft að skera niður um fimm lögreglumenn á árinu til að halda sig innan fjárheimilda. Eðlilegra hefði verið að tala um, að ekki hefði verið hægt að ráða í stöður fimm lögreglumanna á Vesturlandi á þessu ári vegna fjárskorts.
AUKASTAFUR
Auka – r – á það til að skjóta sér inn í ýmis orð. Molaskrifari fletti nýjasta tölublaði Stundarinnar (20.10.2016) þar er haft eftir frambjóðanda Dögunar í heilsíðuauglýsingu að heimilið eigi að vera griðarstaður. Á að vera griðastaður, skjól, staður þar sem hægt er að vera í friði fyrir áreiti annarra.
Á öðrum stað í blaðinu er fyrirsögnin Stundarskáin. Þar er getið ýmissa menningarviðburða. Ætti eftir máltilfinningu skrifara að vera Stundaskráin. Kannski finnst þeim sem skrifa Stundina þetta í góðu lagi. – Margt forvitnilegt er reyndar að finna í blaðinu, – mikið lesefni.
FLAGGAÐ Í HÁLFA STÖNG
Hversvegna í ósköpunum skyldu þeir sem selja BKI kaffi auglýsa kaffið sitt í sjónvarpsauglýsingum (20.10.2016) með því að sýna íslenska fánann blakta í hálfa stöng? Er þetta kaffi kannski sérstaklega ætlað fyrir erfisdrykkjur?
Íslenska fánanum er flaggað í hálfa stöng á föstudaginn langa , samkvæmt reglunum um notkun íslenska fánans svo og við andlát og jarðarfarir. Þessi auglýsing hefur reyndar sést áður, og fyrr verið nefnd í Molum en tilgangurinn með auglýsingunni er óskiljanlegur. Molaskrifari hélt að fyrir löngu væri búið að fleygja henni í ruslakörfuna.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar