«

»

Molar um málfar og miðla 2039

 

SLÆM FYRIRSÖGN

Sigurjón Skúlason skrifaði 24.10.2016: ,, Heill og sæll Eiður

Hér er enn eitt dæmið um slæma fyrirsögn á Vísi: „10 mánaða stjórnarkreppu afstýrt á Spáni“

http://www.visir.is/10-manada-stjornarkreppu-afstyrt-a-spani/article/2016161029537
Vanalega þegar maður talar um að afstýra einhverju þá merkir það að koma í veg fyrir eitthvað. Ekki þegar ástandi sem staðið hefur yfir í 10 mánuði lýkur, hér hefði farið betur að nota annað orðalag.

Að auki eru svo málfarsvillur í fréttinni sjálfri en fyrirsögnin segir allt sem segja þarf.” Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurjón.

AFHENDING VETTVANGS

Vettvangur hefur verið tryggður og afhentur lögreglu. Svona var tekið til orða í hádegisfréttum Bylgjunnar á sunnudag (23.10.2016). Verið var að segja frá eldsvoða. Hvað þýðir að vettvangur hafi verið tryggður og afhentur lögreglu? Á mannamála þýðir það að slökkvilið hefur lokið störfum, eldurinn slökktur og lögreglan tekið við rannsókn málsins Ekki góð málþróun. Í Ríkisútvarpinu var réttilega talað um að lögreglan væri að rannsaka málið.

 

NÖLDUR

Svolítið nöldur um sjónvarpsauglýsingu. Um liðna helgi horfði Molaskrifari á sjónvarpsauglýsingu frá Skeljungi. Þar sást bílstjóri olíuflutningabíls (bíllinn var ekki af minni gerðinni) með lausan hund við hlið sér í akstri. Hann var að gefa hundinum og gæla við hann.

Um gæludýr í bílum er fjallað á heimasíðu Samgöngustofu: http://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/bifreidar-og-almenn-fraedsla/Gaeludyr-i-bil

 

Það fylgir því ábyrgð að aka bíl. Það fylgir því alveg sérstök ábyrgð að aka bíl með hættulegan farm eins og olíu, bensín.

Skeljungur ætti að athuga sinn gang varðandi þessa auglýsingu.

 

TAKK

Takk fyrir fróðlegan Ferðastikluþátt þeirra feðgina Láru og Ómars í Ríkissjónvarpi á sunnudagskvöld (23.10.2016). Hlakka til að sjá framhaldið. Margbreytileiki og fegurð íslenskrar náttúru naut sín vel.  Þetta  eru skrifara áður ókunnar slóðir.. Hvað skyldi þess vera langt að bíða að þarna fari um þúsundir ferðamanna á dag? Ekki langt með sama áframhaldi. Landið verður ekki samt.  Gætum okkar.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið 23.10.2016) . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>