ÁDREPA
Ragga Eiríks sendi Molum eftirfarandi (27.10.2016): ,,Eins og þorri þjóðarinnar eyði ég löngum stundum nánast daglega á facebook (og nei, mér finnst óþolandi þegar fólk talar um fésbók, snjáldurskruddu, skvaldurskjóða eða feisbúkk. Eina íslenskunin sem ég sætti mig við er andlitsbók (no kvk), og sögnin að andlitsbóka (so), enda mun það hugarsmíði kollega míns Ágúst Borgþórs, sem er fyndnari en margir). Á þeim tiltekna samfélagsmiðli tjá notendur skoðanir sínar – sem er reyndar frábært, því þjóðin er þá í það minnsta að skrifa og nota málið – nokkurn veginn filterslaust. Raunar er betra að mál sé notað, en að það sé ekki notað – og gleðin yfir því er flesta daga yfirsterkari óþolinu yfir málvillunum sem vaða uppi. En ég get þó ekki orða bundist.
Hér eru níu villur sem ég rekst á ALLTOF OFT á facebook og eru að gera mig sturlaða:
Einhvað/eitthver
Dæmi: Er einhvað stuð í gangi í kvöld? Er eitthver á leiðinni í bæinn?Ástæða: Hvorugt orð er til í íslensku máli. Hins vegar eru orðin einhver og eitthvað til.Rétt notkun: Er eitthvað stuð í gangi í kvöld? Er einhver á leiðinni í bæinn?
Víst að
Dæmi: Ég þarf ekki að fá lánaðan titrara víst að ég fann minn undir rúmi.Ástæða: Kolrangt. Orðasambandið „víst að‟ vísar til þess að eitthvað sé víst eða öruggt. Til dæmis mætti segja: „Nú er orðið víst að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur verða í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabil.‟
Rétt mál: Ég þarf ekki að fá lánaðan titrara fyrst að ég fann minn undir rúmi.
Systir
Dæmi: Ég fór í afmæli með systir minni.Ástæða: Forsetningin með stýrir þágufalli. Í dæminu að ofan er nafnorðið systir í nefnifalli.
Rétt mál: Ég fór í afmæli með systur minni.
Talva
Dæmi: Talvan mín hrundi í gær, ég bugast!
Ástæða: Rétt nafnorð er tölva. Nafnorðið talva er ekki til í íslensku.
Rétt mál: Tölvan mín hrundi í gær, ég bugast!
Að/af
Dæmi: Stelpur, mig vantar tillögur af góðum rjómabollum, ég er búin að leita og leita af þeim.
Ástæða: Kolrangt.
Rétt mál: Stelpur, mig vantar tillögur að góðum rjómabollum, ég er búin að leita og leita að þeim.
Hengur
Dæmi: Flauelsskikkjan mín hengur þarna á snaganum við hliðina á leðurblökunni.
Ástæða: Sögnin heitir að hanga, ekki að henga. Hér er henni ruglað saman við aðra sögn – að hengja.
Rétt mál: Flauelsskikkjan mín hangir þarna á snaganum við hliðina á leðurblökunni.
Þágufallssýki í öllum myndum
Dæmi: Mér hlakkar svo til að vita hvort honum langar í sleik í kvöld. Mér vantar reyndar andlegan styrk því mér kvíðir svo fyrir að hitta hann.
Ástæða: Sagnirnar að hlakka, að langa, að vanta og að kvíða taka EKKI með sér persónufornafn í þágufalli.
Rétt mál: Ég hlakka svo til að vita hvort hann langar í sleik í kvöld. Mig vantar reyndar andlegan styrk því ég kvíðisvo fyrir að hitta hann.
Eignarfallsflótti
Dæmi: OMG það er búið að loka þessu mömmubloggi vegna rifrildi.
Ástæða: Forsetningin vegna tekur með sér eignarfall. Vegna EINHVERS. Orðið sem stendur eftir henni á því að vera í eignarfalli.
Rétt mál: OMG það er búin að loka þessu mömmubloggi vegna rifrildis.
Vil/vill
Dæmi: Ég vill betra samfélag, þess vegna er ég femínisti.
Ástæða: Sögnin að vilja í fyrstu persónu eintölu er rituð með einu elli. Hún vill hins vegar eitthvað, og hann vill eitthvað líka. Já og barnið, það vill meira að segja eitthvað.
Rétt mál: Ég vil betra samfélag, þess vegna er ég femínisti.”
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar