«

»

Molar um málfar og miðla 2050

ÍÞRÓTTASKRIF

Sveinn skrifaði (10.11.2016):

,,Sæll Eiður, blaðamenn á íslenskum fréttamiðlum virðast oft og tíðum í erfiðleikum með móðurmálið. Gerir maður í þeim efnum ekki sömu kröfu til þeirra allra? En það hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa að á vef Ríkisútvarpsins finnist ekki fréttaskrif sem þessi.

http://www.ruv.is/frett/umspilsleikur-for-fram-um-midja-nott

Með von í brjósti reikna ég með að málfarið hafi verið lagað eftir að ég sendi þér þetta skeyti en til þess að öllu sé til haga haldið er hér að neðan texti fréttarinnar.
,,Leikurinn milli sænsku knattspyrnuliðanna Karlsberg og Luleå fór fram á heldur dramatískan hátt. Leikurinn átti að spilast klukkan 19:00 að staðartíma í Stokkhólmi en allt kom fyrir ekki.
Heimaliðið í leiknum, Karlsberg Ballklubb, sem spilar vanalega leiki sína á íþróttavellinum Stadshagen í Stokkhólmi, tóku á móti gestunum, Luleå, en sá bær er staðsettur í Norður-Svíþjóð. Gestirnir komu með flugi sem tekur u.þ.b einn og hálfan klukkutíma í framkvæmd, þegar þeir lentu sáu þeir hins vegar að líkurnar á því að leikurinn færi fram utandyra væru stjarnfræðilegar þar sem snjóað hefur í Stokkhólmi undanfarna daga og var völlurinn sem leikurinn átti að fara fram á fullur af snjó.

Var þá tekið á það ráð að flytja leikinn í innanhúshöll með gervigrasi sem staðsett er í Bosön, austurhluta Stokkhólms. 17:30 lögðu gestirnir því af stað með rútu frá Arlanda(alþjóðaflugvelli Stokkhólms) og til Bosön, rútuferð sem undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti að taka tæpar 50 mínútur. Það var hins vegar ekki fyrr en 20 mínútum fyrir miðnætti sem lið Luleå komst á leiðarenda, fimm klukkutímum eftir að þeir lögðu af stað. „Ég hef upplifað skemmtilegri daga. Við erum búnir að sitja fimm klukkutíma í rútu,“ sagði Fredrik Waara þjálfari Luleå í samtali við NSD, bæjarblaðið í Luleå. Gestirnir kröfðust þess eftir allt þetta ferðalag að leikurinn yrði spilaður, 00:20 fengu þeir ósk sína uppfyllta og leikurinn var settur í gang.

Leikurinn var umspilsleikur, fyrri af tveimur, um hvort liðið myndi leika í 1. deildinni í Svíþjóð á næsta ári, sem er þriðja efsta deild þar í landi. Leikurinn vakti mikla athygli, svo mikla að John Guidetti framherji Svía tístaði um leikinn á meðan A-landsliðið er í París að undirbúa sig fyrir leik gegn Frakklandi sem fram fer á morgun í undankeppni HM 2018.“ – Þakka bréfið, Sveinn. Hér mætti margt um málfarið segja. Þó hefur maður séð það svartara í íþróttafréttum.
ÞOLMYNDIN ENN

Þetta er af forsíðu mbl.is (09.11.2016):

Meðfylgj­andi mynd­ir voru tekn­ar af sjó­manni á Vest­fjarðamiðum í gær. Þetta er ekki skýrt. Eru þetta myndir af sjómanni? Voru myndirnar teknar sjómanninum með valdi? Eða tók sjómaður myndirnar? Þetta voru myndir sem sjómaður tók. Fallegra, skiljanlegra og betra hefði verið að segja: Þessar myndir tók sjómaður á Vestfjarðamiðum í gær. Germynd er alltaf betri.

http://www.mbl.is/200milur/frettir/2016/11/09/myndaseria_svona_er_thetta_bara/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>