TIL HAMINGJU!
Það var verðskulduð viðurkenning sem skáldið og rithöfundurinn Sigurður Pálsson hlaut í gær á degi íslenskrar tungu.Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Sannarlega tímabært. Þetta var að maklegleikum. Ævar vísindamaður var einnig vel að sínum heiðri kominn. Til hamingju báðir tveir.
ÓVÖNDUÐ ÞÝÐING – SLÆMUR TEXTI
Sigurður Sigurðarson sendi Molum eftirfarandi á degi Íslenskrar tungu (16.11.2016). Fréttin er frá deginum áður:
,,Sæll,
Á visir.is stendur eftirfarandi:
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að hluti af sér vissi að sitt gamla lið myndi lenda í vandræðum …
Blaðamaðurinn sem þýddi þessa frétt hefði mátt vanda sig betur. Enginn segir „… að hluti af mér vissi …“. Er þá átt við að fóturinn, maginn eða önnur öxlin hafi vitað eitthvað? Nei, þetta er bara hrá þýðing úr ensku sem gengur ekki „ … part of me knew …“. Betur fer á því að segja á íslensku: Innst inni vissi ég … eða ég hafði grun um að … Með svona vinnbrögðum er vegið að íslensku máli. Þannig skekkist málið ef svo má segja og hugsunin brenglast.
Sami blaðamaður segir í sömu frétt:
„Liðið er á þriðja stjóranum á þremur árum síðan Skotinn hætti.“
Hér er átt við að á þeim þremur árum síðan Skotinn hætti hafi þrír stjórar verið starfandi hjá félaginu. Á barnum getur maður verið á þriðja glasi en fjandakornið að sama orðalag sé hægt að nota eins og gert í fréttinni.
Margt annað er óvandað í þessari frétt:
- Þegar hann og David Gill [stjórnarformaður Man. Utd] hættu á sama tíma var risastórt gat sem þurfti að fylla.
- Hann fékk þolinmæði sem síðustu tveir stjórar á undan José Mourinho fengu ekki.
- Ef menn vilja árangur strax getur það fljótt farið í vaskinn.
Á fjölmiðlum hefur orðið til einhvers konar „íþróttamál“, orðalag eða talsmáti sem hvergi finnst annars staðar. Hugsanlega er það vegna þess að ritstjórar og fréttastjórar hafa um það að velja að ráða fólk til starfa sem þekkir inn á íþróttir en hefur ekki reynslu í skriftum eða ráða fólk sem hefur þekkinguna en kann lítið til í íþróttum. Oftast er það fólkið með fyrrnefnda hæfileikannsem er ráðið en því miður virðist það ekki fá nógu góða tilsögn í fréttaskrifum. Þegar öllu er á botninn hvolft er það hið síðarnefnda sem skiptir öllu, fyrir fjölmiðilinn og íslenskt mál.“Kærar þakkir, Sigurður, fyrir þarfar ábendingar.
MEIRA UM SLAKAR ÞÝÐINGAR
Rafn skrifaði Molum (14.11.2016): Sæll ,,Eiður
Eitthvað er athugavert við þýðingu þessa myndartexta hjá vefmogga (mbl.is). Ef almennt hefði verið farið að ráðum þýðandans og senditæki sett í gang, þá hefði það væntanlega teppt tíðnisviðið og þær útsendinga, sem ná áttu til almennings þar með verið kaffærðar.
Hér hafa tilmælin augljóslega verið að opna ætti fyrir viðtöku útvarpsviðtækja.
„Flóðbylgju-viðvörun. Hafið kveikt á útvarpssendingum,“ stendur á vegaskilti í Nýja-Sjálandi. Stór jarðskjálfti skók Suðurey fyrr í dag.
Þakka ábendinguna , Rafn.
Á ensku var þetta svona: TSUNAMI WARNING – TURN RADIO ON
https://mail.google.com/mail/u/0/?shva=1#inbox/158624d468fd9895
KVÆNT KONA
Í ramma í Morgunblaðinu (15.11.2016) segir um nýjan þingmann: Hún er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík , er kvænt , á tvö börnog tvö stjúpbörn.Þetta er rangt orðlag nema því aðeins að konan sé kvænt konu, gift konu.Svona til umhugsunar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar