«

»

Molar um málfar og miðla 2058

HRÓS

Mörgum þykir Molaskrifari full spar á hrósið, – að hrósa því sem vel er gert. Þáttur Boga Ágústssonar og Karls Sighvatssonar, Viðtalið ,á mánudagskvöld (21.11.2016) í Ríkissjónvarpinu var vel unninn og fróðlegur. Enda vanir menn að verki. Yfirlitið um skosk stjórnnmál og viðtalið við forsætisráðherra Skota Nicolu Sturgeon gaf áreiðanlega mörgum nýja sýn á stöðu mála hjá þessum grönnum okkar. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni.

Sérstakt hrós fær einnig Vera Illugadóttir fréttamaður Ríkisútvarps. Hún er góður fréttamaður, vel máli farin og útvarpsþættir hennar eru ævinlega áhugaverðir og fræðandi. Fjalla oft um efni sem annars yrðu útundan, sætu á hakanum. Það er þakkarvert.

 

 

FERÐASTIKLUR

Ferðastiklur þeirra feðgina Ómars og Láru í Ríkissjónvarpi á sunnudagskvöld (20.11.2016) brugðust ekki. Þau fóru með okkur um sannkallaða undraveröld við Mýrdalsjökul, Giljaheima, sem Ómar vildi kalla. Tuttugu og fimm ( að minnsta kosti ) stórfenglega falleg gil. Stórbrotin fegurð. Þetta svæði hafa örugglega aðeins örfáir áhorfenda áður séð. Spjallið við Ólaf Þorstein Gunnarsson bónda á Giljum gaf þættinum aukið gildi. – Löngu prikin, sem svo voru nefnd, og smalarnir notuðu eru broddstafir. Færeyingar nota líka broddstafi. Þegar við kvöddum Færeyjar að loknum störfum þar í árslok 2008 færðu góðir vinir okkur fagurlega útskorinn færeyskan broddstaf. Það var gjöf, sem gladdi.

 

ENSKUVÆÐING AUGLÝSINGANNA

Enskuvæðing auglýsinga sem á okkur dynja alla daga fer hraðvaxandi.

Orðin TAX FREE, sem fjölmörg stórfyrirtæki nota óspart stinga í augu með risaletri á síðum dagsblaðanna og heyrast næstum á hverjum degi á öldum ljósvakans. Þar virðist auglýsingastofa Ríkisútvarpsinsfyriur löngu hafa tapað áttum og dómgreind. Það er ekki verið að auglýsa neitt skattleysi, eða undanþágu frá skatti – heldur aðeins dálítinn afslátt.

Síminn auglýsir Sjónvarp Símans Premium.

Vodafone lætur ekki sitt eftir liggja og auglýsir Ready for business. Kjötkompaníið Ready for business. Er fyrirtæki þitt Ready for business?

Það má segja að tekið hafi í hnúkana, þegar verslunin Ilva auglýsti ChristmasJólatré! Endemis þvæla! Sú verslun auglýsir líka Tax-free eins og ekkert sé, þótt hún hafi ekkert með skattlagningu að gera, bara álagningu.

Í Bandaríkjunum eru jafnan stórútsölur föstudaginn eftir þakkargjörðarhátíðina (e. Thanksgiving). Þann föstudag kalla bandarískir kaupmenn Black Friday,föstudaginn svarta. Nú er það 25. nóvember. Íslenskir kaupmenn apa þetta eftir og auglýsa á ensku Black Friday. Molaskrifari rak augun í fyrstu auglýsinguna með þessari slettu daginn eftir dag íslenskrar tungu (17.11.2016).

Verslunin Intersport auglýsir Black Friday hverjum degi um þessar mundir, – raunar oft á dag.  Elkó auglýsir (22.11.2016) hinn eiginlega Black Friday, hvað svo sem það nú þýðir!

Það kom fram í fréttum CNBC (21.11.2015)í Bandaríkjunum, að svarti föstudagurinn, svo kallaði,  væri á hröðu undanhaldi vestra. Stór-útsölurnar hæfust á netinu strax í byrjun vikunnar og fólk verslaði æ meira á netinu í síma og með tölvum og spjaldtölvum. Þess vegna væri föstudagurinn í þakkargjörðarvikunni ekki sá mikli útsöludagur lengur, sem hann hefði verið fyrir nokkrum árum. En við erum stundum dálítið á eftir.

Einstaka íslenskt fyrirtæki talar um föstudaginn svarta, en þau eru fá.

Er það að verða undantekning, að íslensk fyrirtæki beri virðingu fyrir móðurmálinu? Sé ekki betur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>