SJÁLFSVIRÐINGIN
Molavin skrifaði (04.12.2016): ,, Fréttabörn Morgunblaðsins fá enga tilsögn áður en þeim er hent að lyklaborðinu. Þetta stóð í Netmogga í dag (4.12.) í frétt um að bandarískri konu hafi verið nauðgað á Indlandi: „Konan hafði fyrst samband við lögregluna í gegnum tölvupóst með aðstoð bandarísku samtakanna NGO.“ Óreyndir unglingar með takmarkaða enskukunnáttu eru látnir þýða fréttir af Netinu. NGO er ensk skammstöfun fyrir Non-Governmental Organization; óopinber samtök, oftast líknarfélög. Hafa ritstjórar Morgunblaðsins enga sjálfsvirðingu lengur?“ Þakka bréfið, Molavin. Á Channel News Asia er þetta svona á ensku: ,, … had initially contacted them through an email by a US-based NGO. Það er líklega djúpt á sjálfsvirðingunni! Þýðingin alveg út í hött. Saga vitlausra þýðinga hjá Mogga lengist og lengist! Það á ekki að fá fólki verkefni, sem það ræður ekki við.
TVÆR VIKUR TIL JÓLA?
Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi, 6. desember, sagði fréttamaður okkur, að nú væru ,,einungis tvær vikur til jóla.“ Hefjast jólin 20. desember í ár? Hefur almanakinu verið breytt? Er búið að færa jólin?
MISSTI NIÐUR FLUGIÐ
Molalesandi benti skrifara undarlega fyrirsögn á mbl.is (04.12.2016):
Tiger missti niður flugið. http://www.mbl.is/sport/golf/2016/12/04/tiger_missti_nidur_flugid/
Fréttin var um golfleikarann Tiger Woods, sem byrjaði vel en missti svo flugið. Hann missti ekki niður flugið. Helgarvaktin á mbl. is ekki í góðum gír.
MYNDATEXTI
Sigurður Sigurðarson skrifaði (03.12.2016): ,,Sæll,
Stundum vantar myndatexta og það strax … blaðið er að fara í prentun. Eins og með allan annan texta er mikilvægt að einhver lesi yfir, helst með gagnrýnu hugarfari. Innra eftirlit skilar miklu og er satt að segja hluti af gæðaeftirliti fjölmiðils.
Eftirfarandi er dæmi um kauðslegan myndatexta:
Þyrla Landhelgisgæslunnar fer á loft á vegi í Heiðmörk eftir að hafa lent þar vegna lítillar flugvélar sem þurfti að nauðlenda á veginum vegna gangtruflana. Vélin lenti heilu og höldnu.
Betur hefði farið á því að hafa textann á þessa leið: Þyrla Landhelgisgæslunnar í Heiðmörk. Þar hafði lítil flugvél giftusamlega náð að nauðlenda vegna gangtruflana.
Myndatextar þurfa ekki að lýsa því sem á myndinni sést, þá væri hún oft óþörf. Öllum má vera ljóst að þyrlan er annað hvort að lenda eða taka á loft.
Eitt að því sem gerir texta ljótan er stagl, svokölluð nástaða (orð sem standa nálægt). Takið eftir að orðið vegur kemur tvisvar fyrir, sögnin að lenda þrisvar, vél tvisvar. Doldið mikið um endurtekningar í þrjátíu orða myndatexta“. Þetta mun vera úr helgarblaði Mogga.
Kærar þakkir fyrir þetta Sigurður. Réttmæt ábending.
SNÆFELLSNES VALINN …
Trausti benti á fyrirsögn á visir.is (03.12.2016) http://www.dv.is/frettir/2016/12/2/snaefellsnes-valinn-besti-afangastadur-vetrarins-i-evropu/
„Snæfellsnes valinn besti áfangastaður vetrarins í Evrópu“
Trausti segir:,,Alltaf er gaman að sjá landinu hrósað, en óneitanlega hefði verið skemmtilegra ef í fyrirsögninni hefði staðið: Snæfellsnes valið besti áfangastaður vetrarins í Evrópu.“ – Þakka bréfið, Trausti. Það er hverju orði sannara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar