«

»

Molar um málfar og miðla 2074

FYRIRHÖFN OG FJÁRMUNIR

Þorvaldur skrifaði Molum (13.12.2016): ,,Sæll Eiður.

Var að horfa á Kastljós þar sem rætt var við lögfræðing Lyfjastofnunar um eftirlit með svokölluðum lækningatækjum. Pilturinn sagði að setja þyrfti frekari „rísorsa“ (e. resources) í eftirlitið til að það mætti koma að gagni. Ekki átti hann íslenskt orð yfir hugtakið, en hefur trúlega átt við fyrirhöfn og fjármuni.“ Þakka bréfið Þorvaldur. Enskusletturnar eru í mikilli sókn, – því miður. Ekki þarf lengi að hlusta á útvarp til að komast að raun um það.

UM BIRGJA

Birgir er fyrirtæki, sem sér öðrum fyrirtækjum aðföngum, segir orðabókin. Það beygist sem hér segir: birgir, birgi, birgi, birgis. Í fleirtölu: birgjar, birgja, birgjum, birgja. http://bin.arnastofnun.is/leit/?id=4528. Þetta vefst fyrir ýmsum. Þetta er af mbl.is (13.12.2014):,, Þór­ar­inn Þór­ar­inns­son (Innskot- svo!) , vöru­stjóri á Iðnaðarsviði hjá N1, seg­ir þeirra frost­lög koma frá birgja í Bretlandi, sem hafi sett svo nefnd­an „bitter­ing ag­ent“ út í frost­lög­in.

„Okk­ar birgi á í mikl­um viðskipt­um við Frakk­land og þar er þetta skyldað sam­kvæmt lög­um,“ Þetta er eiginlega tóm vitleysa. Frostlögurinn kemur frá birgi. Okkar birgir á í erfiðleikum. Óþarfi er að nota ensku,  bittering agent“. Það hefði verið alveg nóg að tala um biturt, bragðvont efni. Enginn les yfir. Eða, að sá sem las yfir er jafn illa að sér og sá sem skrifaði. Svo er maðurinn Þórarinsson, ekki, – Þórarinnsson. Óttaleg hörmung.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/13/bitri_frostlogurinn_freistar_ekki/

 

ÓÞARFA ÞOLMYNDIN

Enn eitt dæmi um óþarfa þolmynd af fréttavefnum mbl.is (12.12.2016) : ,, Síðdeg­is í gær var síðan ferð ölvaðs öku­manns stöðvuð á Hafn­ar­fjarðar­vegi við Arn­ar­nes af lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu.Betra hefði verið: Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ferð ölvaðs ökumanns á

Hafnarfjarðarvergi við Arnarnes. Germynd er betri. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/12/12/fjorir_grunadir_um_fjarkugun/

Og hér er annað dæmi um vonda, eiginlega verri,  þolmynd, – einnig af mbl.is (13.12.2016) : Nú í kvöld birt­ust frétt­ir í sænsk­um fjöl­miðlum þess efn­is að grun­ur léki á gríðarleg­um skan­dal hvað varðar hagræðingu úr­slita af leik­mönn­um í efstu tveim­ur deild­um sænsku knatt­spyrn­unn­ar. Þetta er eiginlega enn verri texti en dæmið um ferð ölvaðs ökumanns. Hér hefði til dæmis mátt segja: Í kvöld birtust fréttir í sænskum fjölmiðlum um að grunur léki á að leikmenn í tveimur efstu deildum sænsku knattspyrnunnar hefðu hagrætt úrslitum knattspyrnuleikja. Það væri meiriháttar hneyksli ef rétt reynist. Stór skandall skekur Svíþjóð, er fyrirsögnin ! – Ekki góð vinnubrögð.

http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2016/12/13/stor_skandall_skekur_svithjod/

 

GÓÐUR!

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (13.12.2016) var sagt frá hópslagsmálum í Arnarfirði ,,Kúlubardaganum mikla“ fyrir einum 60 árum, sem sennilega hefðu verið síðustu hópslagsmál á Íslandi, en þar gekk greinilega mikið á, þótt mannfall yrði ekki. Að lestri fréttarinnar loknum, sagði Broddi Broddason, þulur: Og víkur nú sögunni að síðari tíma íþróttum og svo fylgdi ný íþróttafrétt. Góður !

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>