«

»

Molar um málfar og miðla 2083

ENN EITT DÆMIÐ …

Enn eitt dæmið um slaka málfræðikunnáttu mátti heyra í fréttum Ríkisútvarps , – og sjá á vefsíðu Ríkisútvarpsins (27.12.2016): ,,Karlmaður, sem grunaður er um að hafa haldið konu gegn hennar eigin vilja á heimili sínu og nauðgað henni, hefur verið gert að afplána 630 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar.     „ Karlmaður hefur ekki verið gert …. Karlmanni hefur verið gert …. Þetta hafði verið lagfært í fréttum klukkan 1800. Var sett inn á fréttavefinn klukkan 16:07 og var óbreytt þar fjórum klukkustundum síðar. Slæmt að reyndir fréttamenn skuli ekki heyra, þegar þeir lesa setningu, sem er málfræðilega röng. Ekki er betra, að menn skuli ekki hafa rænu á að leiðrétta þetta á fréttavefnum.

 

MINNKI EKKI HÆKKUN

Helgi Haraldsson prófessor emeritus i Osló og góðvinur Molanna, benti skrifara á þessa fyrirsögn Stundarinnar: Alþingismenn minnki ekki „mjög mikla“ launahækkun sína þrátt fyrir áskorun forsetans. – Er þetta áskorun til þingmanna um að skerða ekki þá launahækkun, sem þeir fengu? Verður vart skilið á annan veg. Þakka ábendinguna, Helgi.

http://stundin.is/frett/althingismenn-minnki-ekki-launahaekkun-sina-thratt-fyrir-askorun-forsetans/

 

ÓVANDVIRKNI

Í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti á annan dag jóla var sagt: Orsök flugslyssins eru rakin til … Þetta er rangt. Orsakirnar eru raktar til … En þetta er lesið svona fyrir okkur vegna þess að enginn les yfir áður en lesið er fyrir okkur. Verkstjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki sem skyldi.

 

RÉTT SKAL ÞAÐ VERA

Í frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins er sagt frá því, að sumar dansmeyjarnar í frægum flokki, sem sýnir listir sýnir sínar í Radio City Music Hall, í Rockefeller Center á Manhattan í New York, vilji ekki tala þátt í danssýningu þegar Donald Trump verður settur í embætti 20. janúar 2017. Kannski smáatriði, en þau skipta líka máli í fréttum, en í fréttinni er dansflokkurinn ítrekað kallaður Rocketts. Dansflokkurinn heitir hinsvegar The Rockettes   Rétt skal það vera. Molaskrifari man vel, er hann sá þessar dömur dansa í Radio City í byrjun nóvember 1960, – það er orðið dálítið langt síðan !

http://www.ruv.is/frett/sumar-neita-ad-dansa-fyrir-trump

 

SVOKÖLLUÐ ÞRENGSLI

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (28.12.2016): ,, Lokað hefur verið fyrir innganginn að Raufarhólshelli í Þrengslunum svokölluðu, suðaustur af Bláfjöllum.“ Hvers vegna svokölluð Þrengsli? Má þá ekki alveg eins tala um svokallaða Hellisheiði? Inngangur að helli heitir hellismunni.

Molaskrifari er reyndar þeirrar skoðunar að Raufarhólshellir sé sunnan eða suðaustan við Þrengslin, sem eru milli Lambafellls að vestan og Gráuhnúka að austan.  Hellirinn talsvert sunnar, en hann er við Þrengslaveginn.

http://www.ruv.is/frett/kosti-6400-kronur-ad-fara-i-raufarholshelli

 

Lýkur hér síðustu Molum ársins 2016.

 

Gleðilegt ár, ágætu Molalesendur.

Þakka ykkur góð og gefandi samskipti á árinu, sem nú er senn liðið, og óska ykkur alls hins besta á nýju ári.

 

 

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður.

    Tek undir það með þér að Raufarhólshellir er alls ekki í Þrengslunum eins og margoft hefur verið sagt í fréttum síðustu daga.

    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>