MAT
Fréttamat er auðvitað umdeilanlegt. Skrifara fannst það skrítin forgangsröðun hjá umsjónarmanni Kastljóss (11.01.2016), þegar rætt var við formenn stjórnarflokkanna að byrja á því að ræða um ESB-mál. Hversvegna?
Vegna þess að ESB hefur lýst því yfir, að engin ný ríki geti öðlast aðild á næstu árum. Það sé ekki á dagskrá. Í öðru lagi er mikil óvissa um framvindu mála innan ESB í tengslum við útgöngu Breta. Það líða ár uns þau mál verða komin á hreint. Um það er ekki mikill ágreiningur. Þess vegna hefur þetta mál hvað okkur varðar verið lagt til hliðar um sinn. Við bíðum átekta, hvað sem skoðunum um aðild eða atkvæðagreiðslur líður. Málið er ekki á dagskrá.
HVAÐ ÞARF TIL?
Ríkissjónvarpið heldur áfram að birta ódulbúnar áfengisauglýsingar, – til dæmis á miðvikudagskvöld í þessari viku (11.01.2017), – þrátt fyrir að stofnunin hafi fengið stjórnvaldssekt eða sektir fyrir að auglýsa áfengi. Hvað þarf til að breyta þessu? Molaskrifari vonar að nýr ráðherra Ríkisútvarpsins hafi í sér dug og döngun til að taka í lurginn á stjórnendum, sem telja sig hafna yfir lögin í landinu, – þurfi ekki að fara eftir þeim.
AÐ ÁVARPA (EITTHVAÐ)
Molaskrifari hefur hnotið um það nokkrum sinnum að undanförnu að ýmsir eru farnir að nota sögnina að ávarpa í nýrri merkingu og gætir þar áhrifa frá ensku, – eins og svo víða á lendum móðurmálsins um þessar mundir. Að ávarpa er að yrða á, eða tala til. Getur líka verið að flytja (stutta) ræðu: Ráðherra ávarpaði fundinn, flutti ávarp á fundinum.
Nú er í vaxandi mæli farið að nota þessa sögn eins og enska sagnorðið to address er stundum notað, um að hefjast handa við eitthvað, hefja verk, ráðast í verkefni , takast á við eitthvað ( failure to address the main issue, Encarta World English Dictionary)- Taka ekki á kjarna málsins. Dæmi um þessa notkun sagnarinnar að ávarpa heyrðum við til dæmis í viðtali við forseta ASÍ í seinni fréttum Ríkissjónvarps (11.01.2017). ,, … og það er ekki ávarpað í þessum stjórnarsáttmála, nein svona tillaga að því hvernig á að höndla þá deilu …“ (03:35) http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/tiufrettir/20170111
Þessi þróun er ekki af góða.
INNPÖKKUN
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (11.01.2017). Fráfarandi utanríkisráðherra gaf eftirmanni sínum kaffibolla, sem í var aðgangskortið að ráðuneytinu. Í fréttinni sagði: ,, Kaffibollinn hafði verið pakkaður inn og ofan í honum var aðgangskortið að ráðuneytinu.“
Kaffibollanum hafði verið pakkað inn. Enginn les yfir.
http://www.ruv.is/frett/gudlaugur-fekk-kaffibolla-fra-lilju
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar