«

»

Molar um málfar og miðla 2093

 

NÝIR VENDIR …

Auglýsingar Hamborgarabúllu Tómasar eru oft frumlegar og skemmtilegar. Rétt eins og auglýsingarnar frá Kaupfélagi Borgfirðinga. Koma stundum þægilega á óvart.

Nýlega (13.01.2017) mátti heyra svohljóðandi auglýsingu í Ríkisútvarpinu frá Hamborgarabúllu Tómasar: Nýir kústar sópa best. Ekki kann Molaskrifari fyllilega að meta þetta. Er ekki hinn gamli orðskviður eða málsháttur enn í góðu gildi: Nýir vendir sópa best? Er nokkur ástæða til að breyta því? Kannski hefur textahöfundur óttast að hlustendur skildu ekki orðið vöndur. Nýir vendir sópa best – þýðir að nýliðar séu líklegri til meiri og betri verka en þeir sem fyrir voru.

 

BANDAFYLKIN, EÐA HVAÐ?

Í dagskrárkynningu Ríkissjónvarps í Morgunblaðinu (13.01.2017) er sagt frá verðlaunamyndinni Dóttur kolanámumannsins (1980- The Coal Miner´s Daughter). Þar segir: Loretta ólst upp í sárri fátækt í Kentucky-fylki en varð síðar heimsfræg söngkona. Kentucky er eitt af ríkjum ( e. state) Bandaríkjanna. Það er ekki fylki, – enda tölum við ekki um Bandafylki Norður Ameríku, heldur Bandaríki Norður Ameríku. –  Annars hefur kvikmyndaval Ríkissjónvarps batnað mikið  frá því sem var hér fyrir 2-3 árum, þegar stundum var eins og grafið hefði verið niður á botn ruslakistunnar þegar kom að því að velja kvikmyndir. Nú eru þeir reyndar orðnir fáir, sem eiga ekkert annað áhorfsval en Ríkisútvarpið.

 

ÓLYFJAN

Fyrirsögn af visir.is (12.01.2017):Vara nemendur HÍ við að þeim gæti verið byrlað ólyfjan. Ólyfjan er kvenkynsnafnorð. Þess vegna ætti fyrirsögnin að vera: Vara nemendur HÍ við að þeim gæti verið byrluð ólyfjan.

http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=%C3%B3lyfjan

 

RÚSSAR Í STRÍÐI

Rússar eru í stríði, áróðursstríði. Það er ekki nýtt, en nú er vígvöllurinn ljósvakinn  og netheimar. Rússar brjótast inn í tölvukerfi og reyna að hafa áhrif á úrslit kosninga í öðrum löndum. Reyna að skaða stjórnmálamenn, sem þeim eru ekki að skapi. Þetta reyndu þeir til dæmis í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember á liðnu ári. Þeir hafa víðar verið að verki við sambærilega iðju. –Rússar  hafa einnig  verið iðnir við að dreifa lygafréttum, uppspuna og óhróðri. Það er ekki ný bóla.

Í Fréttatímanum (14.01.2017) segir, að Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor við Háskóla Íslands hafi nýlega verið í viðtali    ,, við skoskt útibú rússneska áróðurmiðilsins Sputnik News“. Um það fyrirtæki segir Fréttatíminn: ,,Sputnik News er í eigu rússneska ríkisins og hefur ítrekað verið bent á að fréttaflutningur miðilsins litist af áróðursstríði Pútíns við Vesturlönd. Pútín og hans menn voru fyrirferðarmiklir í Panamaskjölunum

Prófessor dr. Hannes Hólmsteinn var samkvæmt Fréttatímanum að verja Sigmund Davíð Gunnlaugsson í þessum rússneskættaða áróðursmiðli.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>