«

»

Molar um málfar og miðla 202

   Vefdv (17.11.2009)… og þannig verði fjöldi starfsmanna atvinnulaust og birgja fyrir miklu tjóni. Tær og skýr hugsun , ekki satt? – Meira úr Vefdv sama dag: … komið hefur verið upp sérstakri aðstöðu fyrir ofurölva nemendur. Lýsingarorðið ofurölvi beygist ekki. Því ætti að standa þarna:.. fyrir nemendur sem eru ofurölvi. 

Vefdv er um þessar mundir mikil ambögulind. Eftirfarandi er þaðan (17.11.2009):  Sagan segir að stórt brúnt umslag af peningum fyrir þinggjöldum fyrir alla farþegana hafi verið skotið upp í flugvélina áður en lagt var af stað til Ísafjarðar. Þarna átti auðvitað að standa: Stóru brúnu umslagi…..  og  farþeganna, ekki farþegana. Sígilt dæmi um að skrifar man ekki hvaðan  fór, þegar komið er fram í miðja setningu.

 Í veðurfréttum Stöðvar tvö (17.11.2009) var talað um að útlit væri fyrir fínu veðri. Ekki í fyrsta skipti sem svo er tekið til orða þar á bæ. Betra væri að segja að útlit væri fyrir gott veður, fínt veður.

 Enn og aftur tala fréttamenn RÚV um að brúa fjárlagagatið ( tíu fréttir 17.11.2009) Göt eru  ekki brúuð. Það er stoppað í göt eða  þeim lokað. Þetta er endurtekið nánast daglega í sjónvarpi RÚV , þegar  rætt erum hvernig skuli loka fjárlagagatinu. Fréttamaðurinn, sem valinn hefur verið til að fjalla um þessi mál,,veit greinilega ekki betur.   Gott var að hlusta á formann Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benediktsson  í fréttum RÚV(18.11.2009).Hann talaði réttilega um að loka  fjárlagagatinu.  Viðmælendur eru oftar en ekki betur máli farnir en fréttamenn. 


  Gaman var að horfa og hlusta á frétt um velgengni íslenskra hönnuða ,sem hannað hafa  svokallaðar fjölnota flíkur. Ekki var eins gaman að heyra það ágæta fólk sem rætt var við nota  enskusletturnar  concept, collection og season. Hreinn óþarfi, svona daginn eftir dag íslenskrar tungu.  

 

  Samstarfsmaður frá fyrri árum, áhugasamur um íslenska tungu, sendi Molaskrifara eftirfarandi: Mig langar að spyrja hvort þú gætir ekki skrifað nokkur orð um nammi og frítt. Það er ekki nóg með að þessi orð séu notuð í auglýsingum, ég sé að fullorðið fólk notar þau í alvarlegum textum. Hvað varð um sælgæti og ókeypis ? Þetta er hárrétt ábending. Orðið sælgæti er gott og gegnsætt orð. Næstum fallegt. Nammi er leikskólamál, sem því miður of margir hafa tekið með sér til fullorðinsára. Og svo er ókeypis miklu fallegra en frítt. 

 

  Hannes Hólmsteinn Gissurarson er einn stórbokkanna á blogginu,sem ekki leyfa neinum að gera athugasemdir við það sem þeir skrifa. Í nýju bloggi skrifar hann um Davíð Oddsson og segir: Þótt Davíð kunni eins og allir slyngir stjórnmálamenn að gjalda lausung við lygi, eru svik ekki til í munni hans.

    Ekki er Molaskrifari viss um  að Hannesi sé alveg ljóst, að þetta orðtak þýðir að svara lygi með óhreinskilni, gjalda í sömu mynt. Molaskrifari sat í rúmlega tvö ár í fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og reyndi hann þá aldrei að öðru en drengskap og heilindum í hvívetna. Eftir það áttum við stundum trúnaðarsamtöl um ýmis efni, en undanfarin misseri þekki ég minn gamla vin eiginlega ekki fyrir sama mann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>