«

»

Molar um málfar og miðla 231

Málfar í íþróttafréttum  mætti  á stundum vera betra. Í íþróttafréttum  í hádegisfréttatíma RÚV (02.01.2010) var sagt… að hollenski knattspyrnumaðurinn sé  frjálst að yfirgefa spænska stóriiðið…Þarna hefði átt að segja að hollenska knattspyrnumanninum væri frjálst… Einhverjum er eitthvað  frjálst.  

Sami fréttamaður  sagði í  þessu sama  fréttatíma ..Liverpool og Tottenham hafa verið orðuð  við kappann.Nú er Molahöfundur  ekki mikill  knattspyrnusérfræðingur ,en einhvernvegin finnst honum að  það  hefði átt að snúa þessu við og segja að kappinn hefði verið orðaður við knattspyrnuliðin Liverpool og Tottenham. Sama orðalag var notað í íþróttafréttum  Stöðvar  tvö (02.01.2010) Liverpool hefur verið orðað við kappann. Þar var líka sagt: Léku  fyrir  framan  38 þúsund   áhorfendur,– óíslenskulegt orðalag. Í  fréttum RÚV  þennan sama dag var  talað um að taka þátt á mótinu. Þetta heyrir  maður alltaf öðru hverju. Menn taka ekki þátt á  einhverju  heldur í einhverju.

 Í inngangi  sem  fluttur var á undan Ævintýri á gönguför  á  Rás eitt  (03.01.210) var talað um að leggja eitthvað af mörkunum. Þetta orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt ,heldur  ævinlega að leggja eitthvað af mörkum. Sitthvað fleira heyrðist Molaskrifara vera í  þessum inngangi,  sem orkaði tvímælis.

Úr mbl.is (03.01.2010). Fréttin var um truflun á  flugi  til og frá  Kanaríeyjum vegna  rafmagnsleysis í  miðstöð  flugumferðarstjórnar: 43 flugvélar á leið frá Kanaríeyjum voru fastar á jörðu niðri.   Það var og.

Málvís Molavinur  sendum  Molum eftirfarandi pistil á gamlársdag:

Öryggisventill allra landsmanna rofnaði upp úr kl. 1 í nótt.  Báðar útvarpsrásirnar létu ekkert í sér heyra í rúman hálftíma! 

Hvað hafði gerst? Var óþjóðalýður búinn að yfirtaka Efstaleitið?  Ýmsar hugsanir leituðu á mig meðan ég beið skýringa í fréttum kl. 2 – en þær komu ekki.  Yfirleitt eru sömu fréttir endurteknar á klt. fresti þar til maður kann þær utan að,en nú þótti þeim ekki taka því að upplýsa landslýð um ástæðuna fyrir þessu – heldur ekki í fréttum í dag.
Þeir þegja þunnu hljóði.  Samkeppnin? 

Í mínum huga er engin ástæða fyrir nefskatti lengur.  Menningarhlutverkinu er ekki sinnt og öryggishlutverkinu ekki heldur – hvað finnst þér?

Ástæðuna veit ég núna.  Rafmagnið var tekið af til að prófa vararafstöð, sem brást.

Nú þarf enn að spara í Efstaleitinu og þá ber vitanlega að fækka starfsfólki, eða hvað?   Fyrirgefðu þetta raus á gamlársdag.

Molaskrifari leyfði sér að sleppa einni setningu úr þessu  bréfi þar sem fjallað var um útvarpsstjóra, laun hans  og  glæsibifreið.

Molaskrifari upplifði líka þessa þögn á  báðum  rásum RÚV. Svolítið óforskammað  að kynna hlustendum þetta ekki hvorki fyrirfram né  eftir. Að minnsta kosti hefur það  farið  fram hjá þeim sem þetta  skrifar , hafi það verið gert.

Það var öndvegisdæmi um  yfirborðskenndan    fréttaflutning er fjallað  var um ferðakostnað ráðherra og ráðuneyta   í fréttum Stöðvar tvö (03.01.2010).  Það er  ekki hægt að leggja skynsamlegt mat á  þetta  nema  vita tilefni ferða  og hve margir  fóru. Þetta er  bara hálfsannleikur. Auðvitað komast ráðherrar og  embættismenn ekki hjá því að  ferðast.   En sannarlega á að gæta aðhalds og   ekki varð betur heyrt en það hefði verið gert, þótt ekki væri mikið gert úr þeirri staðreynd.  Þetta var yfirborðsfrétt. Af þeim er alltof mikið í  fjölmiðlum.

→ Rita ummæliFlokkar

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>