«

»

Molar um málfar og miðla 255

„Meðlimir“ eru lífseigir. Svona var tekið  til orða á  mbl.is (08.02.2010) : „Þetta er í fyrsta skipti sem Rússar kaupa vopn frá meðlimi Atlantshafsbandalagsins, Nató.“  Rússar  voru að kaupa  herskip af Frökkum.  Eðlilegt hefði verið að segja: Þetta er í fyrsta skipti sem Rússar kaupa herskip af Natóríki.

   Í  hádegisfréttum  RÚV (08.02.2010) var  sagt frá vatnstjóni og  sagt „… þannig að húsið flæddi á ný“. Ekki  fellir Molaskrifari  sig við þessa notkun  sagnarinnar að flæða. Ef  einhvern flæðir þýðir það að hann fari í kaf á aðfallinu. Kindurnar flæddi, enda voru þær á skeri,sem fer í kaf á flóðinu.  Á vef  RÚV er fyrirsögnin: „ Samgöngur enn úr skorðum í Washington vegna  snjós“.  Nú er eignarfallið  snjós  vissulega til. Þarna hefði þó verið   eðlilegra og fallegra  að  segja: … vegna snjóa.

  Í fréttatíma RÚV sjónvarps (07.02.2010)  sagði  fréttamaður: „ …. ekki vera áfellisdóm yfir hvernig heilbrigðiskerfið er  að standa  sig í málaflokknum“. Líklega  finnst  fréttastofunni þetta vera  gott orðalag. Það  finnst Molaskrifara ekki. Ekki  ,- er að standa sig, heldur stendur sig. Í sex  fréttum RÚV sama dag var  sagt frá umfjöllun um Icesave í  Silfri Egils fyrr um daginn. Þá  sagði fréttamaður: „…Breta, Hollendinga og  Íslendinga  alla  eiga  sök á máli“,  eða „..að máli“.  Ógerlegt  var að heyra hvort var sagt. Fréttamaður ekki nógu skýrmæltur.  Hér hefði   verið  hægt að segja að þessar þrjár  þjóðir deildu sök í málinu.  Eða, að allar þrjár þjóðirnar ættu hlut að máli.

Af Pressunni (06.02.2010) : „Hann staulaðist inn í beinskiptan bíl sinn og keyrði honum, einungis með hægri fæti, að húsi sínu. “. Hann keyrði ekki bílnum. Hann keyrði  bílinn. Svo orkar auðvitað tvímælis að hann hafi keyrt  bílinn, „einungis með hægri fæti“. Líklega hefur hann notað hendurnar líka.

  Laugardagskvöldið (06.02.2010) varð umsjónarmönnum  Júróvisjón langlokunnar   áRÚV tíðrætt um  „græna herbergið“. Þetta hugtak er úr ensku (the green room)  notað um  setustofu eða herbergi þar sem leikarar eða  gestir  geta  áð eða hvílt sig  milli þess sem þeir eru á  sviðinu, eða meðan þeir  bíða  þess að koma fram. Til er gömul saga um breskan  hermann eða málaliða  sem var nýkominn   frá Afríku  þar sem hafði barist. ( Bretar voru alltaf að berjast í Afríku). Hann átti að koma fram í beinni  útsendingu í sjónvarpi og var látinn bíða í  græna herberginu  þar sem  veigar dýrar  voru á boðstólum og ekki skornar við nögl.  Biðin varð lengri en  reiknað hafði verið með. Þegar  að  viðtalinu í sjónvarpssal kom, var  blessaður maðurinn orðinn svo slompaður, að hann svaraði öllum spurningum með   jái , neii  eða hummi.   Daginn  eftir  töluðu fjölmiðlar um hve  einstaklega hógvær og lítillátur þessi hugrakki hermaður hefði verið !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>