«

»

Molar um málfar og miðla 323

Það er ennþá 2007 hjá Orkuveitu  Reykjavíkur, þegar  þetta fyrirtæki í almannaeigu  kaupir  átta milljón króna Benz handa fjármálastjórann, að sögn DV (09.06.2010).  Þeir voru kannski aðeins of  fljótir á sér.  Í dag (09.06.2010) auglýsir Bílabúð  Benna  14 milljón króna Porsche jeppa.   Sá  bíll  hefði örugglega farið þessum embættismanni vel. Maður verður að komast fljótt  og greiðlega í vinnuna til að hækka heita vatnið um 37% og rafmagnið um 27% til viðskiptavina fyrirtækisins. Skilið þið bílnum og kaupið Skóda, ef þessi embættismaður  þarf svo nauðsynlega á bifreiða að halda.

 Í DV (08.06.2010)   segir frá flugi Iceland Express til Bandaríkjanna. Þar segir að  flogið verði til og  frá  Newark flugvelli, sem   sé nýlegur flugvöllur. Þetta er eins og hver annar þvættingur. Newark flugvöllur (Newark Liberty International Airport)  var  tekinn í notkun  1. október 1928, en hefur  auðvitað verið margstækkaðir og  mikið byggt þar síðan.  Kennedy flugvöllur,sem Icelandair notar, hét áður Idlewild. Byrjað var á gerð hans 1943.  Þriðji flugvöllurinn á þessu svæði er La Guardia. Hann var tekinn í notkun 1939.

Mögnuð var dagskrá Ríkissjónvarpsins að kveldi  þriðjudagsins 8. júní. Að loknum fréttum og Kastljósi, Landsleikur í handknattleik, HM 2010, Leiðin á HM , endursýning, sextándi þáttur af sextán svo tíu fréttir og veður.  Íþróttaunnendur hafa algjöran  forgang   hjá Sjónvarpi ríkisins. Þar  ræður íþróttadeildin kvölddagskránni. Og svo seinkaði íþróttadekrið  tíu fréttum um tíu mínútur, en það þykir hreint ekki tiltökumál í Efstaleiti.

 Í Ríkisútvarpinu var í morgun (09.06.2010) sagt að uppboð hefði verið frestaðí stað þess að segja, að uppboði hefði verið frestað. Æ algengara er að heyra þessa málvillu , nú þegar  oft er fjallað um nauðungaruppboð  í fréttum.

Forseti Eistlands kemur í heimsókn til Íslands, segir  DV (09.06.2010) og birtir mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>