«

»

Molar um málfar og miðla 342

Fréttir í Útvarpi  Sögu  fóru hnökralaust af stað (01.07.2010), en þar er  reyndur fréttamaður Haukur Hólm við stjórnvölinn. Einhverjum kann ef til vill að  finnast sú orðanotkun orka tvímælis  að kalla fólk á þrítugsaldri ungmenni eins og gert var í fyrsta fréttatímanum. Það  orð  finnst Molaskrifara  betur eiga  við um fólk undir  tvítugsaldri. Verið   var að  segja  frá ungum Íslendingum  sem í fylleríi ollu skemmdum  á bílum og bifhjólum á Ítalíu. Útvarpsstjóri Útvarps Sögu hélt upp á þennan áfanga í morgunþætti sinum.

Fjöldi listamanna koma fram,sagði  þrælvanur fréttamaður og  þulur í kvöldfréttum RÚv (30.06.2010). Þetta átti að sjálfsögðu að vera: Fjöldi listamanna kemur fram. Fjöldi er nefnilega  eintöluorð.

Æ algengara er að sjá og heyra  forsetningunum að og  af ruglað saman. Dæmi um þetta mátti sjá á visir.is (30.06.2010), en þar sagði: Lögreglan óskaði svo eftir vitnum af atburðinum í gær. Lögreglan óskaði sem sé eftir að hafa tal af vitnum  að  atburðinum, ekki af  atburðinum.  Maður verður  vitni að einhverju.  Sér eitthvað gerast  eða fylgist með einhverju gerast.

  Stundum á Molaskrifari erfitt með að átta sig á  rökrænu samhengi hlutanna. Í Garðabæ er Fréttablaðið borið heim til hans á hverjum morgni. Ókeypis. En ef hann ætlar að sækja  Fréttablaðið í verslun á Selfossi verður hann að borga fyrir það !

  Svo er hér að lokum örlítil leiðrétting á umfjöllun  DV um garðsláttuvélar (30.06.2010). Þar segir  Jóhann mælir með því, að fólk kaupi sláttuvélar með mótorum annað hvort  frá  Briggs  eða Stratton….   Briggs & Stratton er eitt og  sama  fyrirtækið.  Það  framleiðir  litla  bensínmótora, sem eru nánast  ódrepandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>