«

»

Molar um málfar og miðla 344

Úr mbl.is (01.07.2010): Líkt og fram hefur komið er hvöss lægð yfir landinu nú og má búast við hvössum vindi víða á landinu í dag. Molaskrifaði minnist þess ekki  að hafa áður heyrt  talað um hvassar lægðir.  Málvenja er að tala um djúpar lægðir, eða krappar lægðir í   fréttum af veðri og vindum.

Úr Fréttablaðinu (01.07.2010) þar sem sagt  var frá vélarbilun í Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi: Báturinn var fullhlaðinn fólki og  bifreiðum og ýttu tveir bátar skipinu upp að höfninni til að láta kafara kanna hugsanlegar skemmdir.  Hér  er Herjólfur bæði  kallaður  bátur og skip. Herjólfur er skip  eða  ferja. Kannski óljóst hvar mörkin milli báts og  skips liggja ,  en  engin vegur er að kalla Herjólf bát. Svo  voru  tveir  bátar fengnir til að ýta skipinu að bryggju. Skipinu var ekki ýtt upp að höfninni ! Þeim sem þetta  skrifaði er ekki ljós munurinn á höfn og bryggju.

Skrifað er á  dv.is (01.07.2010): Þýski auðkýfingurinn Otto Happel er staddur hér á landi þessa dagana og ætlar að renna fyrir laxi í Blöndu. Menn renna ekki fyrir laxi. Menn renna fyrir lax, þegar menn reyna að  fanga þennan,  að sögn, göfuga fisk.  Sama villa er í fyrirsögn og fréttinni sjálfri. Þeir á  dv.is eru því samkvæmir sjálfum sér í vitleysunni. Menn renna fyrir fisk, ekki fyrir fiski,segir í  Íslenskri orðabók.

   Sjónvarp íslenska ríkisins sýnir viðskiptavinum sínum meiri fyrirlitningu en nokkur önnur sjónvarpsstöð. Í gærkveldi  (02,07.2010) var klukkutíma seinkun á auglýstri dagskrá og enginn sagði svo mikið sem : Afsakið , að dagskrá skuli hafa seinkað ! Þetta er rakinn dónaskapur. Ekkert var við því að gera að leikur var framlengdur, en fimbulfambi sjálfumglaðra ,,sérfræðinga“ hefði svo sannarlega mátt sleppa. Líklega fá þeir vel borgað fyrir bullið.  En það kostar hinsvegar ekki neitt að biðja hlustendur afsökunar. Það hefðu verið mannasiðir.

Vefmiðilinn  visir.is gerði Molaskrifara  þann heiður að birta  ofangreind ummæli um Ríkisútvarpið (03.07.2010)  ásamt mynd.  Myndatextinn var svona:Eiður átti sæti á Alþingi á árunum 1978-1983 og aftur 1987-1993. Síðustu þrjú árin gegndi hann embætti umhverfisráðherra. Eiður var sendiherra á árunum 1993-1999. Mynd/GVA 

 Í þessum stutta texta er  rangt með farið í hverri einustu setningu !1. Átti sæti á Alþingi samfellt  frá 1978 til 1993. Var umhverfisráðherra í rúmlega tvö ár. Var sendiherra frá 1993 til 15. febrúar 2009. þetta er eiginlega mjög  vel af sér vikið hjá þeim sem skrifaði þennan stutta texta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>