«

»

Molar um málfar og miðla 353

Leiðbeiningar og ábendingar Umferðarstofu, Vegagerðar og Landsbjargar til ökumanna og ferðalanga, sem sýndar eru sjónvarpi ,eru prýðilega gerðar. Gott og þarft efni,sem ætti að sýna sem oftast, því ekki veitir af.  Hún hefði haft gott af sjá þetta  stúlkan sem var að  reyna að komast inn á Hafnarfjarðarveginn af Vífilsstaðavegi í dag (15.07.2010). Hún var með  aðra höndina á farsímanum við hægra  eyrað. Í vinstri hendi hélt hún á  epli,sem hún var að gæða sér á. Enda gat hún ekki gefið stefnuljós og  gekk brösuglega að komast inn í umferðina til  Reykjavíkur.  Vonandi hefur hún komist klakklaust á áfangastað.

Úr dv.is (12.07.2010) …en hún vill koma í veg fyrir að aðrir lendi í sömu örlögum og sonur hennar. Á íslensku er ekki talað um að lenda í örlögum.  Hér hefði  fremur átt að standa:.. en hún vill koma í veg fyrir  að aðrir hljóti sömu örlög.

Í seinni fréttum Ríkissjónvarpsins (12.07.2010) sagði íþróttafréttamaður frá  þeim getspaka kolkrabba Páli í Þýskalandi og  tók svo til orða: … vilja fjölmargir … festa kaup á  kolkrabbann getspaka.  Við  tölum ekki um að festa kaup á eitthvað  heldur festum við kaup á einhverju. hann hefði því átt að segja okkur ,að  fjölmargir vildu festa kaup á kolkrabbanum getspaka.

Myken er lítil eyja við Norður-Noreg. Eyjan liggur rétt 25 kílómetrum neðan við heimskautsbaug.(Morgunblaðið 13.07.2010) Hér er átt við að  eyjan Myken sé  25 kílómetrum  sunnan við  heimskautsbauginn. Molaskrifari  veit að  algengt er  til dæmis í talmáli þeirra  sem starfa við  flug að tala um að fara  niður  til Jeddah eða niður til Jóhannesarborgar.  En orðalag  eins og   þetta  á ekki heima í Morgunblaðinu. Þetta er  ekki vandað mál.    Hvað ætli Húsavík sé annars langt fyrir neðan   heimskautsbauginn að mati Moggans.

Þegar ég joinaði  grúbbuna,skrifar ung stúlka á Fésbókarsíðuna sína (13.07.2010). Fólk á líka að vanda mál sitt á  Fésbókinni.

  Flest verður nú grunsamlegt. Í fréttum Ríkisútvarpsins (13.07.2010) var  talað um grunsamlegan vettvang. Orðalagið er að líkindum  tekið beint úr lögregluskýrslu.  

SS er með sjónvarpsauglýsingu  þar sem boðað er  að  pulsur henti við öll tækifæri, brúðkaup  og allt hvað eina , –  og í  næstu viku erfisdrykkju. Þar er á ferðinni maður,sem borðaði bara  pulsur,–  segir  í auglýsingunni. Það vantar ekkert  hér nema að bæta við: Og þess vegna er hann dauður !

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>