«

»

Molar um málfar og miðla 483

Ríkissjónvarpið  stóð sig vel í gærkveldi (09.12.2010) við að koma  flóknu efni  skilmerkilega til skila í fréttum og  Kastljósi. Sannast  sagna  voru  frásagnir  af  norsku skýrslunni um Landsbankann   svo yfirgengilegar að það tekur venjulegt fólk  talsverðan tíma  að melta það  hvernig  bankabófarnir komust upp með bankaránið með blessun endurskoðendanna Price Waterhouse Coopers. Ótrúlegra en nokkur lygasaga. Ekki var hlustað á  stjórnanda í bankanum, sem sá hvert stefndi og  varaði við.  Ætli hann hafa bara ekki verið rekinn  fyrir að vera  með leiðindi í veislu ræningjanna?

 Það var líka fróðlegt að  hlusta á formann íslensku samninganefndarinnar, Bandaríkjamanninn Lee Bucheit.  Betur að hann hefði fyrr verið kallaður til verka fyrir okkur. Þá kynni ýmislegt að  hafa þróast á annan  veg. Það var líka einkar fróðlegt að heyra hvað hann sem áhorfandi hafði að segja um  forsetann og hlutverk Alþingis.

  Hér var vel að verki staðið af  hálfu fréttastofu og Kastljóss. Hrós fyrir það. 

Merkileg er forsíðumynd  Moggans í dag (10.12.2010)  frá blaðamannafundi Icesave nefndarinnar í Iðnó.  Aðalefni myndarinnar er málverk . Á myndjöðrum  eru hálfir hausar  formanns  nefndarinnar og ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins.  Segja ekki Kínverjar að mynd segi meira en  þúsund orð? Í þessu tilviki er það svo.

  Það hlýtur að teljast til  tíðinda, þegar Morgunblaðið kallar Vilhjálm Egilsson formann Samtaka atvinnulífsins smalahund Steingríms J. Sigfússonar í leiðara. Molaskrifari þekkir Vilhjálm að heilindum og heiðarleika frá samstarfi í stjórnmálum. Honum var  bolað út úr pólitíki  með óheiðarlegum vinnubrögðum í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokksins.  Hádegismóar Moggans eru við Rauðavatn. Þar eru menn  nú  rauðir af reiði út í allt og alla.

 Það voru ekki vönduð  vinnubrögð hjá Stöð tvö (08.12.2010) þegar  sagt  var í fréttum, að   fundi  Alþingis hefði verið  slitið, þegar skríll var með ólæti á þingpöllum.  Fundinum var frestað í tuttugu mínútur. Honum var ekki slitið. Ríkissjónvarpið  hafði þetta rétt.  Mönnum kann að finnast þetta smáatriði. Það er það ekki. Það á að fara rétt með. Smáatriði í fréttum skipta   máli.

    Hér  var á  dögunum nefnd  afspyrnuvond sjónvarpsauglýsing.   Þar er sagt:  Vilt  þú  vita  hvað klæðir þínu vaxtarlagi? Nú  sér  Molaskrifari, að bókin sem verið er að auglýsa er  kölluð Vaxi-n .   Hann hélt reyndar að sér hefði missýnst, en  svo var ekki. Þetta  er ekki  bókarheiti. Þetta er    málleysa. Rétt eins og auglýsingin. 

     Molaskrifari  heyrði niðurlag á  viðtali við  kunningja sinn Elís Poulsen í Skopun, útvarpsmann í í Færeyjum.  Viðtalið  var í morgunþætti Rásar eitt (09.12.2010). Elís  sagði efnislega: Það þýðir ekkert að vera reiður út í stjórnmálamenn. Svo koma bara aðrir stjórnmálamenn og gera  eiginlega alveg það sama.  Skynsamur maður Elís, eins og flestir landar hans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>