Ekki sakar að geta þess í aðdraganda jólanna að orðið jól er fleirtöluorð. Þessvegna tölum við ekki um þrjú jól, eins og nýlega heyrðist í sjónvarpi. Við tölum um þrenn jól, fern jól.
Leppi er fyrir annað augað, segir í myndatexta í Morgunblaðinu (18.12.2010). Ekki þekkir Molaskrifari orðið leppi í merkingunni leppur fyrir auga. Leppur er fyrir öðru auga hefði verið betra orðalag.
Úr dv.is (17.12.2010): Fyrrverandi varðskipið Þór, „Gamli Þór“ sem liggur við bryggju í Gufunesi, er við það að losna frá höfn. Klúðurslegt orðalag. Betra hefði verið, til dæmis: Í hvassviðrinu sem nú gengur yfir eru landfestar gamla Þórs,sem legið hefur við bryggju í Gufunesi að slitna vegna veðurofsans.
Í sjónvarpsauglýsingu um ævisögu Gunnars Thoroddsen er talað um nærgenga mynd af manninum . Molaskrifari hefur ekki heyrt þetta orð áður. Það er svo sem enginn mælikvarði á ágæti orðsins. Orðið er auðskilið og sæmilega gegnsætt. Átt er við að höfundur gangi nærri persónu Gunnars í ævisögunni, sé nærgöngull.
Sérkennilegt orðalag var notað í mbl. is (16.12.2010)í frásögn af umferðaróhappi í Vestfjarðagöngum. Þar var sagt að bíll hefði komið aðvífandi. Kannski er það rangt hjá Molaskrifara að halda að aðeins fólk geti komið aðvífandi.
Meðan Ríkisútvarpið á Rás tvö (17.12.2010) úðaði vikulegu vestanhafs slúðri (þeirra eigin nafngift) yfir áheyrendur hlýddi Molaskrifari á prýðilegan veðurfarspistil Sigga Storms í Útvarpi Sögu. Gott mál hjá Sigga Stormi á degi, þegar spáð var vitlausu veðri um land allt og nánast hvergi er ferðaveður,ekki hundi út sigandi eins og sagt er.
Mogginn djöflast af öllum mætti gegn nýju Icesave samkomulagi, sem gert hefur verið í fullu samráði við foringja stjórnarandstöðunnar, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og Hreyfinguna. Formennina virðist hinsvegar skort pólitískan kjark til að segja já. Vilja skoðað málið í nokkrar vikur, þótt þeir þegar viti allt sem skiptir máli. Mogginn hefur ekki lengur þann mátt ,sem hann eitt sinn hafði.
Gaman var að fylgjast með viðureign Steingríms J. og Bjarna Ben. hjá Sigmari í Kastljósi (16.12.2010). Þeir voru í rauninni ekki mjög ósammála. Stjórn Sigmars á umræðunni var ágæt.
Molaskrifari lætur lesendum eftir að meta ritsnilldina í þessari frétt á mbl.is (17.12.2010): http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/2010/12/17/snjor_yfir_evropu/
Skildu eftir svar