Í fréttum af óveðrinu,sem gekk yfir landið (17.12.2010) var ágætlega orðað í Ríkisútvarpinu að björgunarsveitarmenn og lögreglumenn hefðu haft í mörg horn að líta og staðið í ströngu. Morgunblaðið sagði ágætlega í forsíðufyrirsögn: Óveður gerði víða usla. Hinsvegar var það ekki vel orðað, þegar fréttamaður Ríkisútvarpsins sagði: Áætlunarferðir sem lögðu af stað frá Reykjavík til Akureyrar… Ferðir leggja ekki af stað. Sami fréttamaður sagði: … og ferðin sem fór frá Reykjavík til Akureyrar var væntanleg nú á sjöunda tímanum. Ferðir eru farnar. Þær fara ekki. Undarleg meinloka. Óveðursfréttir Ríkisútvarpsins voru annars ágætar og ítarlegar.
Jólagjöf Ríkisútvarpsins til íslensku þjóðarinnar er fótbolti. Þetta sagði svonefndur iþróttastjóri Ríkisútvarpsins við okkur áhorfendur (17.12.2010). Þetta var sagt í tilefni þessi að Ríkisútvarpið hefur samið um að sýna nokkra knattspyrnuleiki í júní á næsta ári úr Evrópukeppni landsliða skipuðum mönnum yngri en 21 árs, heyrðist Molaskrifara. Jólagjöf til þjóðarinnar! Þetta segir allt um menningarlegan metnað þessarar áttræðu stofnunar ,sem nú er að koðna niður. Fjárskortur virðis ekki vera í Efstaleitinu, þegar íþróttir eru annarsvegar. Þetta er með ólíkindum.
Það orkar tvímælis þegar í sexfréttum Ríkisútvarps (17.12.2010) var talað um sjömenningaklíku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Í sjöfréttum var talað um sjömenningana. Sjömenningaklíkan kann að vera réttnefni, en það er gildishlaðið orð,sem fréttastofa Ríkisútvarpsins hefði ekki átt að nota.
Molaskrifari lætur orðalagið að eitthvað sé komið til að verafara í taugarnar á sér. Þetta sagði fréttaþulur Stöðvar tvö um hækkun strætisvagnafargjalda á höfuðborgarsvæðinu (17.12.2010). Hækkunin er komin til að vera. (Ætlar hún að gista?) Fréttamaður talaði hinsvegar um varanlega hækkun, sem er fínt orðalag.
Í Íslandi í dag (17.12.2010) á Stöð tvö var hvað eftir annað talað um að versla jólagjafir. Við kaupum jólagjafir. Verslum ekki jólagjafir.
Fáein orð um auglýsingar í sjónvarpi. Í auglýsingu Icelandair Gefðu frí um jólin, felst ágætur orðaleikur. Sjónvarpsauglýsing um bók sem kölluð er Vaxi-n er ótrúleg. Hún er morandi í málvillum.
Skildu eftir svar