Úr mbl.is (18.01.2011) … í máli ákæruvaldsins á hendur níu einstaklingum sem m.a. gefið að sök árás á Alþingi 8. desember 2008. Ekki er þetta nú alveg í lagi. Betra hefði verið að segja að þessum einstaklingum væri gefið að sök að hafa ráðist að, eða á, Alþingi.
Meira úr mbl.is (18.01.2011): Ökumaður missti stjórn á bíl sínum í hálku við Brúará í Biskupstungum um klukkan hálf þrjú í dag með þeim afleiðingum að hann valt á aðra hliðina. Eins gott að bíllinn valt ekki á hina hliðina. Eða báðar hliðarnar.
Þegar Ríkissjónvarpið ekki telur ástæðu til að kynna fyrirfram við hvern er rætt í þættinum Í návígi, þá nennir Molaskrifari sjaldnast að voma yfir því að sjá hver birtist á skjánum hjá Þórhalli. Einkennilegt vinnulag.
Hversvegna hafnar Ríkissjónvarpið ekki sjónvarpsauglýsingum þar sem eru enskuslettur? Þannig auglýsingar ganga þvert á svokallaða málstefnu Ríkisútvarpsins? Líklega er það vegna þess að enginn virðist bera ábyrgð á því að málfar í auglýsingum sé boðlegt. Stjórn þessa mikilvæga fyrirtækis þjóðarinnar er í molum.
Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins (18.01.2011) las fréttaþulur: Rannsókn bendir til þess að helmingur barna og unglinga skorti D-vítamín. Helmingur barna skortir ekki, heldur skortir helming barna D-vítamín. Undarlegt að reyndur fréttalesari skuli ekki heyra, þegar hann les þennan vonda texta.Í seinni fréttum sjónvarps var sagt frá sjósundi eða sjóbaði fólks úr rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni á Íslandi í Nauthólsvík. Fréttin átti þó varla erindi í sjónvarp, því engin fylgdi myndin. Mbl.is birti mynd úr Nauthólsvik, þar sem var ekki beinlínis baðveður.
Molaskrifari festist óvart við athyglisverðan pistil Ingva Hrafns um landbúnaðarmál á ÍNN. Sauðfjárbændum virðist vegna vel um þessar mundir og er gaman að heyra jákvæðar fréttir úr landbúnaði. Molaskrifari hefur reyndar áður heyrt áhugaverðar fréttir úr landbúnaði á ÍNN, fréttir sem hann hefur ekki séð að stóru fréttastofurnar hafi gefið gaum. Ekki verður annað sagt en rjóður og sællegur sjónvarpsstjórinn sé sundurgerðarmaður í klæðaburði ,grænn jakki, bleikt bindi, og blá skyrta með hvítum flibba!
Skildu eftir svar