Auglýsingabæklingur frá nýrri verslun,sem kallar sig DOMTI (líklega útibú frá erlendri verslanakeðju) kom með dagblöðunum til Molaskrifara í morgun (19.01.2011). Þar stendur á forsíðu: Þín innkaup á einstöku verði. Það er eins og maður, sem ekki er mæltur á íslensku, hafi samið þetta. En því miður er svona eða svipað orðalag ekkert einsdæmi.
Brengluð orðaröð er að vera býsna algengt fyrirbæri.Fyrir nokkru sendi athugull lesandi Molum eftirfarandi ábendingu: „Gagnstætt venju í mörgum granntungum okkar er það meginregla í íslensku að eignarfall (og eignarfornafn) standi á eftir því orði sem stjórnar fallinu“.
Hér fara eftir nokkur dæmi, einkanlega úr auglýsingum ,um brenglaða orðaröð: Okkar framtíð, auglýsing frá banka. Þinn hraði áletrun á tæki, sem mælir hraða bifreiða á Álftanesi. Fólk afli sér upplýsinga um sín réttindi (úr fréttum Stöðvar tvö). Viltu hámarksraka fyrir þína húð ? Þinn hagur í bílavarahlutum.
Auglýsingahöfundar eru hér ekki til fyrirmyndar um notkun móðurmálsins.
Skrifað var á pressan.is (19.01.2011): Arion banki hefur selt tryggingafélagið Sjóvá. Kaupandinn er fjárfestingafélagið Stefnir. Starfsfólki Sjóvár var kynnt málið á fundi sem var að ljúka. Þetta er vægast sagt ekki nákvæmt. Hið rétta er að fagfjárfestafélag, sem tengist Arion banka, keypti rúmlega 52% hlut í Sjóvá. Seljandi var Seðlabanki Íslands, íslenska ríkið. Þessi fréttamiðill, sem Vátryggingafélag Íslands á með nokkrum Framsóknarmönnum, er greinilega ekki mjög áreiðanleg heimild. (Hvað er tryggingafélagið mitt annars að vasast í svona rugli ?) Svo var reynt að leiðrétta ruglið á pressan. is og þá tók ekki betra við, því þá var sagt: Íslandsbanki hefur selt tryggingafélagið Sjóvá. Kaupandinn er Stefnir, sem er í dótturfélag í eigu Arion banka. Starfsfólki Sjóvár var kynnt málið á fundi sem var að ljúka. Sá sem skrifaði heldur greinilega að Seðlabanki Íslands og Íslandsbanki séu eitt og sama fyrirtækið !
Og vefmiðillinn visir.is sagði: Íslandsbanki seldi í dag tryggingafélagið Sjóvá,át vitleysuna um Íslandsbanka upp úr pressunni. Ótrúlegt. Opinberar léleg vinnubrögð. Mbl.is hafði þetta rétt frá upphafi. Hrós fyrir það.
Úr mbl. is (19.01.2011): Leikarateymi og aðrir starfsmenn nýju Twilight-myndanna urðu strandaglópar á brasilískri eyju á dögunum vegna mikillar rigningar sem aftraði þeim að snúa aftur á hótel sitt. Það sem átt er við er að fólkið varð veðurteppt. Það varð ekki strandaglópar og svolítið einkennilegt er að tala um að rigning hafi aftrað þeim að komast á hótelið sitt.
Það er skrítið hvernig samkynja ambögur vaða upp í fjölmiðlum. Fréttamaður,sem annars virðist prýðilega máli farinn, sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (19.01.2011): … og hafa sérfræðingar í öryggismálum grunað, að það tengdist tölvuárásum erlendra ríkja. Hér hefði átt að segja: … og hefur sérfræðinga í öryggismálum grunað….
Skildu eftir svar