Ósköp er það hallærislegt, þegar Stöð tvö sýnir hálfan handboltaleik (20.001.2011) í opinni útsendingu, en svo kemur lok, lok og læs í hálfleik. Miklu skárra að loka á allan leikinn. Sýna hann allan læstan eins og Stöð tvö hefur fullan rétt til. En þegar maður les það sem Anna Kristine Magnúsdóttir skrifar um framkomu Stöðvar tvö gagnvart viðskipavini sínum í aldarfjórðung , þá setur mann hljóðan.
En allt er þetta er álíka hallærislegt og þegar Ríkissjónvarpið tönnlast á því, að handboltaleikjunum sé lýst í beinni útsendingu á Rás tvö. Það er svona til að undirstrika að Ríkisútvarpið klúðraði málinu. Og þurfa svo að fara á bjórbúllu til að ræða við menn, sem horfðu þar á leikinn ! Það var nú eiginlega botninn.
Lesandi sendi Molum eftirfarandi: „Ég hrekk við þegar ég heyri að kvikmynd um fésbók hafi fengið þrjú verðlaun kenndi við gullknött. Þar fékk Colin Firth líka verðlaun, hann hefur þá væntanlega fengið eitt! [Rás 2]
Eða þegar frétt um eitthvað sem tengdist dönsku kóngafólki fylgdu þær upplýsingar að tilkynning hefði borist frá danska hofinu! [Bylgjan – fréttir]
Svo heyrði ég fyrir alllöngu auglýsingu frá fatabúð sem auglýsti buxur – „tvær fyrir eina“! “
Molaskrifari kanna lesanda þakkir fyrir sendinguna. Því miður heyrast svona ambögur of oft. Það er eins og metnað til að gera vel vanti víða í íslenskum fjölmiðlum.
Það eru lítil takmörk fyrir ruglinu,sem hlustendum morgunútvarps Rásar tvö er boðið upp á. Í morgun (20.01.2010) var sagt við hlustendur: Það á engin pólitísk hugmyndafræði að vera í stjórnarskránni! Molaskrifari hélt reyndar að stjórnarskráin snerist um pólitíska hugmyndafræði. Þar segir í 1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Er það ekki pólitísk hugmyndafræði ? Heldur betur.
Alþingismaður gerir sig að hálfgerðu fífli með því að bera fram fyrirspurnir á Alþingi um hluti, sem öllum eru aðgengilegir ( Hvað eru Íslendingar margir ? Hvað hefur Ísland sendiráð í mörgum löndum? Hvað hefur Ísland stjórnmálasamband við mörg lönd ?) Þessar upplýsingar eru öllum aðgengilegar ýmist með því að hringja í Hagstofuna eða skoða heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Það er fáránlegt, að ætlast til þess að starfsmenn stjórnarráðsins sinni svona rugli. Tölvudeild Alþingis ætti að kenna þessum þingmanni að nota Google-leitarvélina. Þar nægir að slá inn: Stjórnmálasamband Íslands. Þá kemur á skjáinn listi yfir öll þau lönd,sem Ísland hefur stjórnmálsamband við. Þetta er með ólíkindum. Hvaða erindi á fólk á á Alþingi,sem þarf að spyrja um það á Alþingi hvað Ísland sé með sendiráð í mörgum löndum?
Molaskrifari man reyndar þá tíð á Alþingi, fyrir svona 20-30 árum, að einn og sami þingmaðurinn dengdi inn fyrirspurnum í tugatali. Flestar voru þær um tilgangslausa tölfræði, sem ekki nýttist til eins eða neins. Það kostaði hinsvegar mikla vinnu og mikið fé í stjórnkerfinu að elta uppi svör við ánalegum spurningum , – — svör sem aldrei var gert neitt með.
Skildu eftir svar