«

»

Molar um málfar og miðla 509

visir.is  segir í fyrirsögn ( og  texta 21.012011): Heildarverðmæti skulda og hlutafjárs í samkomulagi Landsbankans og ..  Orðið fé beygist: fé, fé, fé, fjár. Ekki eru allar ferðir til fjár, þótt farnar séu, segir gamalt máltæki.

 Þegar Ríkissjónvarpið (20.01.2011) sagði frá   geitabúskap í Mývatnssveit heyrði Molaskrifari ekki  betur  en  fréttamaður   segði, að  geitastofninn hefði  á sínum tíma verið skorinn niður vegna mæðuveiki. Hann átti við  mæðiveiki, sem er  gagnsætt og skiljanlegt  orð. Kannski var þetta misheyrn. 

Molalesandi sendi eftirfarandi: „Þó ég sé aðeins með BS próf í vélaverkfræði skil ég stundum ekki orðanotkun í hagvísum og viðskiptum. Eins og í þessari frétt, það voru mér fréttir að hægt væri að innleysa tap.

„…Miðað við að félagið seljist á 9,4 milljarða innleysir ríkissjóður meira en tveggja milljarða tap vegna björgunarinnar. “ “      Molaskrifari tekur undir þetta. Einkennileg orðanotkun að tala um að innleysa  tap.

 Bíleigendur,sem lenda í vandræðum með farkosti sína  leita gjarnan á náðir  Leós M. Jónssonar , véltæknifræðings,sem er með fastan  dálk í Morgunblaðinu.  Leó er hreint ótrúlegur. Hann  veit  bókstaflega  allt um  bíla og  svör  hans  eru skýr og skilmerkileg. Þetta er fín þjónusta við lesendur Morgunblaðsins.

 Úr Sarpnum:  Hefðarfólk frá Bessastöðum verður líklega seint  alþýðulegt eins og  skrifað var visir.is (02.01.2011): að forsetahjónin hafi verið mjög alþýðuleg í heimsókninni og sett mikinn svip á kvöldið.  Það getur hinsvegar reynt að  gera sig alþýðlegt innan um almúgann. Og er það auðvitað góðra gjalda vert. Verið var að segja frá heimsókn  hjónanna  til Hjálpræðishersins á  aðfangadagskvöld.

Hér er loks tengill  þar sem kemur fram  afar  athyglisverð afstaða  starfsmanna Ríkissjónvarpsins til réttarhaldanna yfir   fólkinu sem  réðist inn á þingpalla.
www.andriki.is/default.asp?art=19012011

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>