«

»

Molar um málfar og miðla 510

 „Væntanlega liggur útskýringin í sögunni,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans,(visir.is 21.01.2011). Ritstjóri  Seðlabankans  er  líklega  ný staða í bankanum. Var hún kannski sett á laggirnar eftir að    fyrrum seðlabankastjóri gerðist ritstjóri Morgunblaðsins ?  

 Góður pistill um Sjóvárránið í fréttum Ríkissjónvarpsins (21.01.2011). Það er með  ólíkindum að þjófarnir skuli enn  ganga  lausir.  Ríkissjónvarpið gerði stofnfjáreigendadómum líka betri skil en  Stöð  tvö.

  Það er oft  gott að geta horft á  seinkaða dagskrá  Ríkissjónvarpsins, en  Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort  ekki  væri rétt  að nýta þessa  rás undir  íþróttaefni. Þá  geta þeir sem  það vilja sjá horft eins og þá lystir  og   íþróttadeildin  gæti hætt að ráðskast með dagskrána  í Ríkissjónvarpinu. Þetta væri til mikilla bóta.

  Dekur Ríkissjónvarpsins   við poppmenninguna  kristallast í þeirri gífurlegu umfjöllun sem  stuttri dagskrá. Önnur  menningarsvið eru  vanrækt. Lítið áhugaverð að mati þeirra,sem stjórna dagskránni í Efstaleiti.

 …  eftir þennan digra íþróttapakka,  sagði  fréttaþulur Ríkissjónvarps (22.01.2011) Íþróttapakki ?Digur pakki?   

    Kastljósið í Ríkissjónvarpinu er þreytt. Það þarf hvíld til að ganga í endurnýjun lífdaganna. Umræðan (21.01.2011) um fréttir liðinnar viku var svo dauf,  að það lá við að maður dottaði. Annar þeirra tveggja, sem þar fenginn til að svæfa hlustendur,  kom svo  rúmlega tólf  tímum seinna sem álitsgjafi um fréttir  vikunnar í  Vikulokunum á Rás eitt.  Hugmyndauðgin    lætur ekki að sér hæða ! Í fyrri viku mun í tveimur   þáttum hafa verið rætt tvisvar við sama  ráðherra um sama efni  sama daginn.

   Molaskrifari bendir  Kastljósfólki góðfúslega  á að kynna sér beygingu karlmannsnafnsins  Ingimar.  Það beygist Ingimar, Ingimar, Ingimar, Ingimars. Kappátið sem sett var á svið  í Kastljósinu var ógeðfellt og óviðeigandi. Hvað er er best af sviðinu ? Þannig spurði  umsjónarmaður Kastljóss.  Má  bjóða þér soðið svið ? Leiksvið eða sögusvið? Orðið svið í merkingunni sviðinn haus  eða leggir sauðkindar eða nautgrips  er ekki til í eintölu. Í þessum þætti  fylgdi svo undarlegt viðtal  við bandaríska bílaleigukonu, sem átti ekkert erindi á  skjáinn. Þættinum lauk með kynningu á dansskóla í Borgarnesi, sem kannski var  skásta efnið í Kastljósi  þetta föstudagskvöld. Það var eiginlega eins og þessi þáttur væri ruslakista vikunnar. Útsvarið stendur hinsvegar  fyrir  sínu og hefur  um langt skeið  ásamt Kiljunni verið næstum eina efnið í sjónvarpi ríkisins , sem Molaskrifari   reynir að missa alls ekki af.  Jafnvel þótt dómaranum verði  stöku sinnum á mistök eins og gerðist 21.01.2011.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>