«

»

Molar um málfar og miðla 511

Prýðilegur þáttur í röð Ríkissjónvarpsins „Átta raddir“ um Bjarna Thor Kristinsson. En hvenær skyldi koma að því að þáttur í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins hefjist á réttum tíma? Líklega er Ríkisjsónvarpið óstundvísasta sjónvarpsstöð norðan Alpafjalla, eins og þar stendur.

  Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (22.01.2011) var talað um óeirðarlögreglu. Eðlilegra hefði verið að tala um óeirðalögreglu. Meira um hádegisfréttir: Í fréttayfirliti hádegisfrétta (23.01.2011) var sagt frá  vatnavöxtum í Hvítá. Þar las  fréttamaður án þess að hika …..og áin flætt yfir bakka sína  og  yfir bæjarvegginn á  150 metra kafla. Enn skal hér  hamrað því   að fréttamenn verða hlusta  þegar þeir lesa, –  og svo er líka til bóta  að þeir skilji textann.  Í fréttinni kom fram að  vegurinn heim að bænum var undir vatni á  um 150 metra kafla.

    Undanfarna janúardaga  hefur  stundum rifjast upp  fyrir Molaskrifara nafn,sem  Danir fyrir mörgum árum gáfu Morgunblaðinu   vegna minningargreinanna.   Þeir kölluðu blaðið De  dödes avis.Dagblað hinna  dauðu. Þessi nafngift átti sérstaklega vel við  föstudaginn 21. janúar. Þá var Morgunblaðið 44 síður. Minningargreinar fylltu 12 síður. Rúmlega 27%. Þetta á heima í heimsmetabók Guinness. Örugglega einsdæmi í veröldinni. Molaskrifari kaupir  Morgunblaðið vegna minningargreinanna.  Mergjaðir Staksteinar, og   leiðarar á stundum, geta verið til skemmtunar. Ekki vegna skoðana. Heldur ritleikni. Og ekki spilla pistlar Kolbrúnar Bergþórsdóttur.

  Það var sjálfsagt og rétt  hjá Ríkissjónvarpinu (22.01.2011) að  segja myndarlega frá því að  Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur hafi hlotið heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands. Það er verðskuldað. Til hamingju, Haraldur.  Molaskrifara rekur  hinsvegar ekki minni til þess, að Ríkissjónvarpið hafi talið það fréttnæmt  þegar  ritstjórinn og skáldið Matthías Johannessen var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands  fyrir skömmu. Vonandi er það ekki rétt munað. 

 Gríðarlegir hagsmunir undir, sagði í fyrirsögn á mbl.is (21.01.2011). Betra hefði verið: Gríðarlegir hagsmunir í húfi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>