«

»

Molar um málfar og miðla 519

 

Góðvinur Mola, Bjarni Sigtryggsson,  benti á  eftirfarandi  á  dv.is (31.01.2011) Frá janúarbyrjun ársins 2002 og til nóvemberloka árið 2010 ullu ökumenn sem voru sjúkir, þreyttir eða undir áhrifum löglegra lyfja 30 banaslysum og 69 alvarlegum slysum.  ….Það ár ullu ökumenn í þessum hópi alls 152 slysum.
 Sá  sem  skrifaði þessa frétt má eiga  það að hann er samkvæmur sjálfum sér í vitleysunni.  Ritstjóri DV  gerði rétt í  því að  leiða  blaðamenn sína í allan  sannleik um beygingu sagnarinnar að valda.  Ökumenn ollu slysum. Beygingarmyndin ullu   af sögninni að valda er ekki til.  Ullu er hinsvegar  3. pers. flt. af söginni að vella Að ulla er hinsvegar barnamál  yfir að  reka út úr sér tunguna   framan í einhvern

Eitthvað skortir á máltilfinningu hjá þeim sem les hiklaust: Að hluti kvóta verði ráðstafað tímabundið, eins og  gert var í  sexfréttum Ríkisútvarpsins (30.01.2011). Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um hluta kvóta.

Molaskrifari er ekki mjög staðfastur áhorfandi Silfurs Egils.  Síðasta  silfur ( 30.01.2011) var óvenju gott.   Tæknitruflanir  frá Símanum skemmdu að vísu svolítið  stórmerkilegt viðtal  við hugsjónamanninn Brewster Kahle. Hann  opnaði manni nýjan heim.    Mjög  margt athyglisvert  kom fram í   samtalinu við Kristin Pétursson.  Mig  grunar samt  að ráðamenn hlusti  ekki á  Kristin. Það ættu þeir þó sannarlega að gera.  Fróðlegt að heyra  Jóhönnu Kristjónsdóttur  fjalla um Egyptaland á barmi byltingar.  Pallborðið var með  betra móti. Mikið hefði hún Þorgerður Katrín annars sómt sér vel í Alþýðuflokknum.

  Þingmaður Framsóknarflokksins  sagðist í Silfrinu vera   samvinnumaður. Einu sinni hafði það orð   fremur jákvæðan blæ í huga  Molaskrifara. Svo er ekki lengur. Ekki  eftir   endalok Sambandsins og  eftir   að  fámennur  hópur  handvalinna og sjálfkjörinna  Framsóknarmanna tók að sér  í    heimildarleysi  að  sólunda öllum  sjóðum Samvinnutrygginga,sem þeir þeir áttu  ekkert í, umfram aðra  viðskiptavini  þessa gagnkvæma tryggingafélags. Það var eiginlega eitt af þjófnaðarmálum aldarinnar.

  Það var góðra gjalda vert hjá Ríkissjónvarpinu að sýna  brot úr Svanasöng Schuberts í fréttalok (30.01.2011), sem fluttur  verður í Íslensku óperunni á föstudagskvöld. Ekki hefði þó  sakað að geta þess hver söng. Þess var látið rækilega ógetið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>