«

»

Molar um málfar og miðla 551

  Úr frétt á  fréttavefnum visir.is (08.03.2011): Það mun hafa verið í kringum 1970 að starfsmenn Rafveitu Akureyrar endurváku þann gamla sið að slá köttinn úr tunnunni. Hér er ekki verið að grínast. Þetta er orðrétt tilvitnun. Ótrúlegt. Glöggur lesandi benti Molaskrifara á þetta. Takk fyrir ábendinguna.  Vísismenn  þurfa að vanda betur valið á þeim, sem  skrifa fréttir.

Nú eru flestir hitamælar stafrænir og  menn sjá  ekki súlu stíga með hækkandi hita eða  síga  þegar kólnar. Þessvegna  hefur blaðamaður mbl.is  líklega skrifað (09.03.2011): .. en veðurstofan spáir því að frost fari  upp fyrir  tuttugu stig á hálendinu síðar  í vikunni.  Hér hefði verið rétt að segja, –  niður fyrir tuttugu stig.   

Í frétt Stöðvar tvö  (06.03.2011) um  fjármálafyrirtækið  Spkef (ömurlegt  nafn) sem áður hér  Sparisjóður Keflavíkur voru    tvær  ambögur.  Fyrst sagði fréttamaður: … var  stór  hluti af  lausafjár bankans  tekinn út…  Átti  að vera   stór hluti af  lausafé bankans  eða  lausafjár bankans.   Sami fréttamaður sagði í sömu frétt: … því bíður Landsbankanum það verkefni …  Átti að vera því Landsbankans það verkefni. Hér  skorti nokkuð upp á  vandvirknina.

 Púðursnjór í borginni segir í fyrirsögn (visir.is 08.03.2011). Molaskrifari er á því að  fallegra hefði  verið að segja til dæmis : Borgin hjúpuð mjöll, Borgin undir mjallarhjúpi. Við þurfum ekki á orðinu púðursnjór að halda í íslensku.  Fyrirsagnasmiður  fréttavefsisins  visir.is var ekki í essinu sínu í gær. Önnur fyrirsögn frá honum:   Á annað hundrað lífrænir neytendur á stofnfundi. Lífrænir neytendur !, ja, hérna.  Molaskrifara fýsir að vita hvort ólífrænir  neytendur hafi ekki líka  haldið fund.

  Skylt að afhenda börnin til föðurs, segir í fyrirsögn á pressan.is  (08.03.2011). Hvar er nú grunnskólalærdómurinn? Sá  sem samdi þessa fyrisögn  hefur ekki náð að læra hvernig orðið  faðir  beygist.

  Úr fréttum Stöðvar tvö (07.03.2011): … hafa öll spjót  staðið á Stefán …. yfirmanninn sem…   Hér  er  rangt farið með  orðatiltæki,sem er fast í   íslensku máli.  Talað er um að öll spjót standi á einhverjum , –  ekki   að öll spjót standi á einhvern.  þegar einhver á mjög undir  högg að sækja eða á  í vök að verjast.

 Það er í tísku hjá sumum verkalýðsleiðtogum að tala um  að teikna upp samninga. Molaskrifara finnst þetta skrítið orðalag. Af hverju ekki að gera drög  að  samningum eða marka  meginlínur í gerð kjarasamninga ?  Menn teikna ekki kjarasamninga.  Það er  bara bull.

  Á landamærunum við Túnis og Egyptaland , sagði fréttamaður  Ríkissjónvarps (07.03.2011). Hefði átt að segja:  Á landamærum Túnis og Egyptalands.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>