«

»

Molar um málfar og miðla 553

 Íþróttafréttamaður  Ríkisútvarps , sagði í sjónvarpsfréttum (08.03.2011) : .. segir að stjórn Bayern bíði erfitt hlutverk. Fréttamaðurinn hefði átt að  segja: … segir að stjórnar Bayern bíði  erfitt hlutverk.

 Í Útvarpi Sögu var rætt við mann,sem þýtt hefur bók um mannsheilann. Hann ræddi þróun mannsins og  sagði:  Og  svo kemst maðurinn  á tvær fætur !. Ekki lofar það góðu um þýðinguna.

Slúðurvefurinn amx birtir (09.03.2011)  nöfn nokkurra hæstaréttarlögmanna ,sem  eru sagðir andvígir  Icesave  samningnum. Á  eftir  nöfnunum stendur: Við þetta er ekkert að bæta.  Það var og !

 Molaskrifari kann Birgi Erni Birgissyni  bestu þakkir  fyrir  eftirfarandi:

„Þegar þyrlan kom að japanska skipinu sáu sjóræningjarnir sína  sæng útbreidda“: „http://visir.is/sjoraeningjar-gafust-upp/article/2011110308889

Sjá má umfjöllun um þetta hér:
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=602543

,,Jón Ísberg bekkjarbróðir minn sendi mér klippu héðan úr Mbl., alþingissíðunni 31. mars. Þar er orðalag sem við Jón kunnum ekki við. Verða nú hjá umsjónarmanni nokkrar málalengingar. Sæng merkti áður fyrr hvíla, hvílurúmið allt, ekki aðeins yfirbreiðslan eins og nú. Að reiða upp sæng merkti að búa um rúm. Stundum notuðu með orðið sæng í merkingunni banasæng eða að minnsta kosti kör og sögðu um þann sem átti ekki annað eftir en vanlíðan og dauða, að hann sæi sína sæng upp reidda. Vandlega er um þetta fjallað í marglofaðri bók próf. Jóns G. Friðjónssonar (Mergur málsins).

Alkunna er að orðtök breytast oft vegna misheyrnar, og svo fór um orðtakið að sjá sína sæng upp reidda. Það breyttist í að „sjá sína sæng út breidda“ eða í einu orði „útbreidda“. Síðan átti merkingin eftir að breytast. Menn áttuðu sig ekki á að þetta þýddi að „horfast í augu við endalokin“, eins og próf. Jón orðar það. Menn fóru jafnvel að halda að merkingin væri góð og þetta þýddi að sjá sér gott færi á einhverju. Ég held að vitleysan hafi byrjað í lýsingum á knattspyrnuleikjum. Þá var stundum sagt, ef menn komust í gott marktækifæri, að þeir hefðu séð sína sæng „útbreidda“. Merkingarbreytingin gat varla verið gertækari.

Þá komum við Jón Ísberg aftur að Morgunblaðsgreininni frá 31. mars. Þar sagði um tiltekinn þingmann, að hann hefði greinilega séð sína „sæng útreidda„, þegar skýrsla Þjóðhagsstofnunar kom út og miklum viðskiptahalla spáð. Þetta er sama öfugnotkunin og hjá knattspyrnumönnum. Nær lagi hefði verið að segja, að ríkisstjórnin hefði séð „sína sæng upp reidda„, af þessu tilefni“

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>