Í fréttum Stöðvar tvö (24.03.2011) var sagt: .. frumvarpið var síðasta leið ríkisstjórnarinnar til að …. Betra hefði verið: Frumvarpið var lokatilraun (úrslitatilraun) ríkisstjórnarinnar til að ….
Rúmlega ellefu og hálf milljón króna voru úthlutaðar til sex verkefna. Þetta er af fréttavef Ríkisútvarpsins (23.03.2011) Hér hefði átt að standa: Rúmlega ellefu og hálfri milljón króna var úthlutað til sex verkefna.
Í framlengingunni skiptust liðin á að ná forystunni, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (23.03.2011). Betra hefði verið: Í framlengingunni voru liðin til skiptis með forystuna.
20% pilta nota tóbak í vörina, sagði á vef Ríkisútvarpsins (23.03.2011). Eðlilegra hefði verið að segja: 20% pilta taka í vörina. En á hitt er svo að líta að ekki er víst að allir hefðu skilið það orðalag.
Velunnari tungunnar og vinur Molanna sendi eftirfarandi:
,,Leit inn á fréttavef Ríkisútvarpsins. Þar er fyrirsögnin Sýkn af rítalínsmygli. Við lestur fréttarinnar kemur þvert á móti fram, að hinn ákærði hafi einmitt gerst sekur um rítalínsmygl. Héraðsdómari taldi sig ekki geta dæmt manninn til refsingar vegna þess að í ákærunni hafi brotið ekki verið „tilgreint nógu nákvæmlega“.
Varla þarf annað en sæmilegt vald á íslenskri tungu til að átta sig á muninum á því „að vera sýkn“ af einhverju og því að vera ekki sakfelldur í dómsmáli.” Kærar þakkir fyrir sendinguna.
Skildu eftir svar