«

»

Molar um málfar og miðla 565

Í grein í DV er skýrt  frá því (23.03.2011)  að   gjaldþrot  Seðlabankans sé  fimmfalt Icesave. Beinhörð útgjöld  vegna   gjaldþrots  Seðlabankans hafi numið  175 milljörðum króna og  gjaldþrot Seðlabanks   kosti hvert einasta mannsbarn á  Íslandi 650 þúsund krónur. Enn fremur segir í greininni, að kostnaðurinn við  Icesave sé   6% af kostnaði  skattgreiðenda vegna falls bankanna.   Morgunblaðið, sem þessa dagana fer hamförum  gegn  Icesave í samvinnu við sálufélaga sína í Útvarpi Sögu hlýtur að leiðrétta  þessar fullyrðingar Jóhanns Haukssonar  blaðamanns í greininni í DV,  – það er að segja ,ef þær eru rangar.

 Úr mbl.is (23.03.2011): Maður sem ók á dráttarvél í umferðinni á fjölfarinni götu í höfuðborginni olli töfum á umferð.  Hér  hefði átt að  tala um mann sem ók dráttarvél. Hann ók ekki á dráttarvél. Þetta er   eiginlega hálfgerð aulavilla.

 Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (23.03.2011) var oftar en einu sinni talað um að  kaupa skýringar, – í merkingunni að  taka  skýringar góðar og gildar.  Ekki getur  þetta orðalag talist  til fyrirmyndar. Í þessum Kastljóssþætti voru tvö lítt skiljanleg innslög um legókubba og  einhverskonar  auglýsingastofu í kassa á hjólum.   Það var svo meira en hjákátlegt, þegar fréttamaður Kastljóss  vottaði  kvikmyndafræðingi samúð  vegna  andláts Elizabethar Taylors eins og um náinn ættingja væri að ræða!  Sami  fréttamaður  talaði um  að meika það sem leikkona.    Málfar af þessu  tagi  ætti ekki að heyrast í Ríkissjónvarpinu. Í  Ríkisútvarpinu var sagt að  ferill leikkonunnar hefði spannað hálfa öld.  Ferill hennar hófst þegar hún var átta ára. og  hún var   sjötíu og níu ára þegar  hún lést.  Á  sjö áratugum  lék Elizabeth Taylor í   sextíu  kvikmyndum.

Mjög góður var Siglufjarðarpartur Kiljunnar (23.03.2011) og  þar átti  upptökustjórinn Ragnheiður Thorsteinsson  mikinn þátt og  góðan, eins og  Egill    að verðleikum nefndi Kiljulok. Efnið var skemmtilegt og framsetning þess með miklum ágætum. Takk.

Bakaríið Kornið er með heilsíðuauglýsingu í DV (23.03.2011). Þar er  auglýst   svokallað ,,Fermingartilboð”. Fermingartilboðið felur m.a.  í sér   ,,40 manna marsipansálmabók”.   Það á sem sagt að  kóróna ferminguna með því að éta sálmabókina. Það er ekki öll vitleysan eins, enda  væri þá lítið gaman að lifa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>