«

»

Molar um málfar og miðla 568

   Molaskrifari stóðst ekki mátið og sendi stutt tölvubréf í  sunnudagsþátt Sirrýjar á  Rás  tvö (27.03.2011)  þar sem útvarpsstjóri  og dagskrárstjóri sátu fyrir svörum. Vel var tekið í ábendingu  um að orðin tax free í fjölmörgum auglýsingumværu ekki lýtalaus íslenska. Hinsvegar voru  bæði útvarpsstjóri  og dagskrárstjóri mjög ánægð  með  enskuskotið leikaraslúður um misfræga leikara  sem óðamála kona hellir yfir hlustendur  á föstudagsmorgnum á  Rás tvö. Ef  auglýsingar eiga  að vera á lýtalausu íslensku máli,  á þá ekki það sama  gilda  um annað efni  í  Ríkisútvarpinu?  Þessir þættir eru býsna  langt frá því vera á   vönduðu mál. En útvarpsstjóra og dagskrárstjóra  fannst  báðum þetta vera  gott útvarpsefni. Það fannst Molaskrifar ótrúlegt heyra

Annars var gaman að heyra  hve margir lýstu  svipuðum  skoðunum  og  Molaskrifari hefur  viðrað hér um kvikmyndaval Ríkissjónvarpsins um helgar.

Í fréttum Stöðvar tvö (26.03.2011) var  sagt frá  eiturlyfjasmyglinu, sem Morgunblaðið hafði greint frá þá um  morguninn. Í fréttinni tók fréttamaður svo til orða: … en konan hefur  ekki komið  við sögu lögreglu af neinu  viti áður…  Ekki komið við sögu  lögreglunnar af neinu viti!  Það er þá líklega bara stórglæpamenn, sem koma við sögu lögreglunnar af einhverju viti,-  eða  hvað?

Lést eftir að hann varð úti  í Reykjavík, var skrifað á  visir.is (26.03.2011) Þetta var reyndar leiðrétt og þá  stóð:  Varð úti í Reykjavík, sem er  rétt orðalag.

Merkilegt að fréttastofu  Ríkisútvarpsins  skuli hafa þótt það stórfrétt, að Þorvaldur Gylfason, – með fullri virðingu fyrir honum, –  skuli ætla að taka sæti í  svokölluðu stjórnlagaráði. Þetta var fyrsta frétt í  aðalkvöldfréttatíma  Ríkisútvarpsins  á laugardagskvöld (26.03.2011).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>