«

»

Molar um málfar og miðla 570

Úr mbl.is  fyrir fáeinum dögum: Flugumferðarstjórinn, sem hefur 20 ára starfsreynslu, hefur verið leystur undan störfum á meðan rannsókn fer fram.  Það er hægt að leysa menn frá  störfum, en  það samræmist ekki góðri málvenju að tala um að leysa menn undan störfum.  Í sömu frétt segir  að flugumferðarstjórinn hafi verið einn í flugturninum á einum fjölfarnasta flugvelli landsins (Bandaríkjanna). Eitthvað er það nú sennilega málum blandið.

Af svínunum er  hin mesta plága,   var sagt í  sexfréttum Ríkisútvarpsins (28.03.2011) er  fjallað  var um villisvín,sem gera sig heimakomin í Berlín við litlar vinsældir borgarbúa.  Hér hefði   verið einfaldara að segja: Svínin  eru  mesta plága.

Úr mbl.is (28.03.2011): Norðmenn segja olíumengun úr Goðafossi vera að skaða fuglaríkið á friðarsvæðinu Grønningen hjá Lillesand.   Við þessa stuttu setningu leyfir Molaskrifari sér að gera þrjár athugasemdir: 1. Norðmenn segja  mengunina vera að skaða… Betra  væri: Norðmenn segja mengunina skaða… 2. Betra  væri að tala um fuglalíf en  fuglaríki. 3.  Friðað svæði  væri betra en friðarsvæði.

Í sömu frétt í mbl.is  segir: „Ástandið er nokkurn veginn undir stjórn en við óttumst aðstæðurnar fyrir sjófuglana”. Ekki getur þetta talist lipurlega orðað. Betra væri: Ástandið er viðráðanlegt,en  við óttumst að sjófuglar geti lent í olíu.

Meira úr  mbl.is: Þá mátti einnig sjá mikla sorg á svæðinu. Undarlega að orði komist svo ekki sé  meira sagt. Mogga fer lítið fram.

Velunnari Molanna sendi eftirfarandi: ,, Í kvöld (28.03.2011) er Sjónvarpið að ryðja út dagskrárliðum vegna knattspyrnuleiks. Það fer í taugarnar á mér. Ekki síst vegna þess að nú stendur yfir hér á landi  alþjóðlegt mót kvenna í íshokkí. Keppendur eru víðsvegar að úr  heiminum m.a. frá Suður-Afríku, Nýja Sjálandi osfrv. Aldrei fyrr hefur mót, svo sterkt,  svo víðfeðmt verið haldið hér á landi. Ekki hefur verið minnst á þessa keppni einu einasta orði. Ekkert sagt frá henni. Hverskonar fjölmiðlun er þetta ?”

Molaskrifari veit ekki hverskonar fjölmiðlun þetta er, nema þessi venjulega fótboltafjölmiðlun,sem ræður ríkjum  í Ríkisútvarpinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>