«

»

Molar um málfar og miðla 571

 

Skrifað er á mbl.is (29.03.2011): Danski varnarmaðurinn Mikkel Christoffersen, sem var til reynslu hjá karlaliði KR í knattspyrnu, verður ekki boðinn samningur við félagið.  Danski varnarmaðurinn verður ekki boðinn samningur! Hér átti  auðvitað  að standa: Danska varnarmanninum… verður ekki boðinn samningur. Það er  eins og sumir haldi að allar setningar þurfi að hefjast í nefnifalli.

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (29.03.2011) var talað um að tilkynna frá einhverju. Eitthvað er  tilkynnt eða sagt er frá einhverju.

Undarlega er tekið til orða í frétt  í Morgunblaðinu (29.03.2011) þar sem  segir frá því að Flugfélag Íslands sé að  svipast um  eftir  vél til kaups eða  leigu í stað vélar  sem laskaðist í  lendingu í  Grænlandi. Í frétt  Morgunblaðsins segir:  Saknar félagið vélar eftir að Dash-8 flugvél þess  skemmdist, þegar …. Rangt er að nota  sögnina að sakna í þessu samhengi. Hér er flugvélar ekki saknað, – sem betur fer. Í upphafi fréttarinnar segir:  Flugfélag Íslands  skoðar nú  að leigja eða festa kaup á….  Allt  skoða menn. Eðlilegra  væri að nota hér sögnina að kanna eða  að athuga.

Oft finnur  Molaskrifari til vanmáttar gagnvart  tungunni og oft rekst  hann á  eða heyrir  orð sem hann ekki skilur. Þannig er um  orðið kyngervi. Orðabókin segir, að það sé  kynferði í félagslegum skilningi. Molaskrifari  játar að hann er litlu nær.  Annað orð  sem  Molaskrifari ekki skildi  var notað nokkrum sinnum  óútskýrt í morgunþætti  Rásar tvö. Greinilega var gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að allir skildu orðið. Þetta var orðið úlfatími. Orðið var ekki að finna í íslensku orðabókinni. Leitarvélin Google  skilaði  435 svörum þegar spurt var. Þetta  reyndust vera   stundirnar frá því að   börn koma úr skóla  eða  leikskóla þar  til þau fara að sofa.   Foreldrum eru gefin góð ráð til að skipuleggja þennan tíma , sem mörgum virðist sérstakt  vandamál.

 Úlfatíminn  (Vargtimmen ) er   heiti magnaðrar kvikmyndar og leikrits Ingmars Bergmans með  Max von Sydow, Liv Ullman og  Erland Josephsson og   fleiri frábærum leikurum. Um Vargtimmen  segir  svo á  heimasíðu Dramataen: ”Vargtimmen är timmen mellan natt och gryning, det är timmen då de flesta människor dör, då sömnen är djupast, då mardrömmarna är verkligast. Den är timmen då den sömnlöse jagas av sin svåraste ångest, då spöken och demoner är mäktigast. Vargtimmen är också den timme då de flesta barn föds.”

Fróðlegt væri að vita  hvernig  nafnið úlfatími hefur komist inn í íslensku og fengið þá  merkingu ,sem  að ofan greinir.

Svo játar Molaskrifari líka, að þegar íþróttakona  sem  rætt var við í  sjónvarpi sagði:Fólk verður að vera  tilbúið á tánum , annars getur allt gerst, – þá  klóraði  hann  sér í höfðinu og  skildi ekki hvað verið var að segja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>