Nokkrum sinnum hefur það verið nefnt í þessum Molum að Ríkissjónvarpið sýnir viðaskiptavinum sýnum dónaskap, þegar kynntur er þátturinn Í návígi og þess látið rækilega ógetið við hvern á að ræða hvað. Hvaða tilgangi þjónar það að segja okkur ekki við hvern á að ræða? Í besta falli er þetta bjánalegt. Þetta er örugglega einsdæmi í dagskrárkynningu hjá sjónvarpsstöð. En einsdæmin hjá Ríkissjónvarpinu okkar eru býsna mörg. Stundum er sagt að einsdæmin séu verst.
Á Hrafnaþingi í ÍNN (29.03.2011) var áhugavert viðtal við Jafet Ólafsson viðskiptafræðing, sem benti á ýmsar jákvæðar hliðar í efnahagsmálum. Skemmtileg tilbreyting frá öfgunum,sem oftast ríða húsum í þessum þætti. Jafet skaut fram þeirri hugmynd að sameina Orkuveituna og Landsvirkjun, setja fyrirtækið á markað og gefa innlendum og erlendum fjárfestum kost á að eignast hlut í glæsilegu orkufyrirtæki. Fín hugmynd og umræðuverð. Sjónvarpsstjórinn eyðilagði reyndar viðtalið í lokin með því að segja ,,að Landsvirkjun væri með rassgatið fullt af peningum”. Ingvi Hrafn gerir lítið úr sér og áhorfendum með svona orðbragði.
Í fréttum Stöðvar tvö var talað um gesti brúðkaupsins, þegar greinilega var átt við þá sem boðnir væru til brúðkaupsins, gesti í brúðkaupinu. Í fréttum sama miðils var (29.03.2011) talað um að forða gjaldþroti. Molaskrifari sættir sig seint við þessa notkun sagnarinnar að forða, sem þýðir að koma undan eða bjarga. Hér hefði betur verið talað um að forða frá gjaldþroti, ekki forða gjaldþroti.
Skildu eftir svar