Fljótt á litið virðist andlitslyfting sjónvarpsfrétta Ríkisútvarpsins hafa tekist bærilega, – nema iðandi og órólegur veggur bak við fréttaþul truflar og er pirrandi. Dregur athyglina frá því sem verið er að segja. Því ætti að breyta sem fyrst. Veðurfregnir hafa líka fengið nýjan svip. Gaman hefði verið að sjá til veðurs í vesturheimi, en þaðan fáum við veðrið flesta daga. Allt þarf þetta þó að skoðast betur og venjast.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (30.03.2011) var talað um flugfélagið Iceland Express. Fréttastofa Ríkisútvarpsins á að fara rétt með staðreyndir. Það var ekki gert í þessu tilviki. Iceland Express er ekki flugfélag. Fyrirtækið hefur ekki flugrekstrarleyfi. Iceland Express er heldur ekki ferðaskrifstofa því fyrirtækið hefur ekki ferðaskrifstofuleyfi. Iceland Express er samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu svokallaður ferðamiðlari. Ekki flugfélag. ekki ferðaskrifstofa. Það er frumskylda fréttastofu Ríkisútvarpsins að segja okkur satt og rétt frá því sem um er fjallað. Það er rangt að koma því inn hjá almenningi, að Iceland Express sé flugfélag. Morgunblaðið er með þetta á hreinu (31.03.2011): Flugfélagið Astraeus, sem meðal annars flýgur með farþega Iceland Express, hefur neitað formlegri beiðni Félags íslenskra atvinnuflugmanna …..
Undarlegt að heyra gamla dönskuslettu úr munni ungs fréttamanns á Stöð tvö sem sagði, að dans spilaði stóra rullu á Listahátíð. Ótrúlega lífseig sletta.
Í fyrirsögn á grein fyrrum ráðherra í Fréttablaðinu (31.03.2011) segir: Staðan á Helguvík. Fjallað er um stöðu væntanlegs álvers í Helguvík. Fyrirsögnin hefði því átt að vera: Staðan í Helguvík.
Fíflagangur eins og viðhafður var í fréttum Ríkissjónvarpsins (31.03.2011) á að vera fyrir neðan virðingu fréttastofunnar.
Molaskrifara varð á í messunni í Molum gærdagsins, er hann eignaði Morgunblaðinu setningu, sem tekin var út úr bréfi Þorkels Sigurlaugssonar í blaðinu og birt með stærra letri inni í texta bréfsins. Um þetta lét skrifari þung orð falla. Hafa skal það sem sannara reynist og þessi feitletraða setning var úr penna höfundar bréfsins, svo ótrúlegt sem það er. Hún var ekki frá Morgunblaðinu komin. Setningin var ekki tilvitnun í bréfið og á skjön við það sem þar var sagt. Öðruvísi gat Molaskrifari ekki skilið hana. Morgunblaðið er beðið velvirðingar á þessu.
Því er oft gaukað að Molaskrifara, að skötuhjúin, sem láta móðan mása í Útvarpi Sögu tali illa um hann,- stundum dag eftir dag. Molaskrifari er mjög ánægður með það. Verra væri, ef þessu liði lægi gott orð til hans. Það væri skelfilegt.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
04/05/2012 at 13:23 (UTC 0)
Nei, – þetta er ekki boðlegt.
Alli skrifar:
04/05/2012 at 11:36 (UTC 0)
„Die gerði sér nefnilega fyrir og sló boltastrák þéttingsfast utan undir í leik gegn Lausanne“
Afritað af Vísir.is Er þetta boðlegt? Hvar er fagmennskan og virðing fyrir tungumálinu?